Hafrannsóknastofnun gaf í fyrrakvöld út loðnuráðgjöf upp á tæplega 22 þúsund tonn. Samkvæmt samningum eiga Norðmenn og Færeyingar rétt á aflaheimildum úr heimildum Íslands, sem eru talsvert umfram þessa ráðgjöf, samkvæmt upplýsingum Þorsteins Sigurðssonar, sérfræðings í atvinnuvegaráðuneytinu.
Samkvæmt þríhliða samningum eiga Grænlendingar 15% af loðnukvótanum við Ísland og Norðmenn 5%. Er 80% hlutur Íslands úr þeim samningi því 17.440 tonn miðað við ráðgefinn afla. Hlutdeild Færeyinga er 5% af heildarkvótanum samkvæmt fiskveiðisamningi Íslands og Færeyinga og dregst frá heimildum íslenskra skipa, eða um 1.080 tonn miðað við ráðgjöfina.
Þyngst vegur ákvæði í svokölluðum Smugusamningi Íslendinga og Norðmanna. Samkvæmt honum fá Norðmenn að veiða 25.600 tonn af loðnu árlega hér við land gegn þorskveiðum Íslendinga í Barentshafi. Vegna loðnubrests hér við land tvö síðustu ár voru Íslendingar komnir í skuld við Norðmenn. Viðræður standa yfir við þá þar sem engar loðnuveiðar voru við Ísland á þessu ári, samkvæmt upplýsingum Þorsteins.