Mikilvægt að krakkarnir upplifi sig örugga

Þórunn Hrund Óladóttir skólastjóri fyrir utan Seyðisfjarðarskóla.
Þórunn Hrund Óladóttir skólastjóri fyrir utan Seyðisfjarðarskóla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórunn Hrund Óladóttir, skólastjóri Seyðisfjarðarskóla, segir það mestu furðu hversu lítil áhrif aurskriðurnar í bænum hafa haft á börnin í skólanum.

„Við erum búin að vera í Covid og við erum öllu vön. Maður verður ekki mikið var við þetta í skólanum. Við pössum upp á það að halda vel utan um þau og þau vita að það er öruggt að koma til okkar. Þá fara þau í rútínuna sína og það er ofsalega mikilvægt í svona aðstæðum að krakkarnir upplifi sig örugga,“ segir Þórunn og tekur fram að skólinn sé á öruggu svæði.

Það er allt á floti á Seyðisfirði.
Það er allt á floti á Seyðisfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um aðstæðurnar almennt í bænum segir hún fólk vera kvíðið og í ákveðnu sjokki en allir hjálpist að við að takast á við þetta erfiða verkefni. „Auðvitað er fólki ekki rótt og það sem gerðist í nótt var til að toppa það,“ segir hún en tvær aurskriður féllu í bænum í nótt. Sjálf býr hún fyrir utan rýmingarsvæðið og hefur því sloppið vel.

Vegna myrkurs eru aðstæður erfiðar í bænum til að bregðast við því sem gerst hefur og meta stöðuna almennilega. „Það er rosalega vont að vera á þessum árstíma að standa í þessu. Maður sér ekkert hvað er að gerast. Það er bjart liggur við þrjá tíma og dag og við getum ekki einu sinni metið þetta. Þetta er bara myrkur og rigning,“ segir Þórunn Hrund.

mbl.is