Opna dyrnar fyrir íbúa Seyðisfjarðar

Seyðisfjörður í dag.
Seyðisfjörður í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigrún Jóhanna Þráinsdóttir framkvæmdastjóri 701 hotels, sem rekur Hótel Valaskjálf og Hótel Hallormsstað ásamt veitingastöðum, segir að nokkuð vel gangi að koma íbúum Seyðisfjarðar fyrir á hótelum.

„Við erum búin að koma flestum fyrir í Valaskjálf og eitthvað af fólki er farið að fara upp á Hallormsstað líka,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Hótelherbergin verði í boði eins lengi og þörf krefur.

Rann blóðið til skyldunnar

„Hótelin okkar voru lokuð hvort sem var vegna Covid-19, við opnuðum bara fyrir þetta og tökum stöðuna dag frá degi.“ 

Hún segir að sjálfsögðu hafi þeim runnið blóðið til skyldunnar við fregnirnar frá Seyðisfirði.

„Það stendur ekkert á manni þegar þess þarf.“

Bjóða gæludýrapössun og föt

Sigrún segir ekki hægt að meta andrúmsloftið, það sé þó erfitt og fólk í áfalli. 

„Fólk er að bjóða fram aðstoð sína við þá sem eru að taka á móti fólki, bjóðast til að passa upp á gæludýr, ef fólk þarf auka fatnað og mat.“

mbl.is