Rögnvaldur: Engra saknað

00:00
00:00

Rögn­vald­ur Ólafs­son, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá al­manna­vörn­um, seg­ir að eins og staðan sé núna sé engra saknað eft­ir aur­skriðu sem féll á nokk­ur hús í Seyðis­firði um klukk­an þrjú. Alla­vega tíu hús eru skemmd eft­ir skriðuna, auk húsa sem höfðu skemmst í öðrum skriðum síðustu nótt.

Þrátt fyr­ir að einskis sé saknað er unnið að því að skrá alla íbúa til að ná utan um fjöld­ann og ganga úr skugga um að all­ir séu heil­ir á húfi. Rým­ing bæj­ar­ins er í gangi og er fólki bent á að fara á einka­bíl­um eða með rút­um frá fé­lags­heim­il­inu Herðubreið eft­ir að hafa skráð sig.

Er fólki beint á að fara í fjölda­hjálp­armiðstöð sem opnuð hef­ur verið í Eg­ilsstaðaskóla á Eg­ils­stöðum. Þá hef­ur fjöldi íbúa á Eg­ils­stöðum boðið Seyðfirðing­um gist­ingu.

Rögn­vald­ur seg­ir að ekki hafi verið hægt að skoða um­fang skriðunn­ar náið í dag og það verði ekki hægt fyrr en hæg­ist um, lík­lega í fyrsta lagi á morg­un. Seg­ir hann að þá sé áætlað að veðrið gangi niður, en mik­il rign­ing hef­ur verið á Aust­fjörðum.

Sér­sveit rík­is­lög­reglu­stjóra hef­ur verið kölluð til aðstoðar á svæðinu að sögn Rögn­vald­ar. Seg­ir hann að það sér­sveit­ar­menn komi sem venju­leg­ur liðstyrk­ur við lög­reglu á svæðinu, en all­ir lög­reglu­menn á svæðinu eru á fullu í vinnu. Seg­ir Rögn­vald­ur að auðveld­ast hafi verið að kalla sér­sveit­ina til með stutt­um fyr­ir­vara, þar sem all­ur búnaður hafi verið til staðar.

Rögn­vald­ur á ekki von á að mikið verði gert í nótt á Seyðis­firði, en að vakt verði á staðnum.

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum.
Rögn­vald­ur Ólafs­son, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá al­manna­vörn­um. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son
mbl.is