Seyðfirðingar beðnir um að halda sig heima

Breiðablik hreyfðist um 50 metra í nótt þegar aurskriða hreif …
Breiðablik hreyfðist um 50 metra í nótt þegar aurskriða hreif það með sér. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á Austurlandi biður Seyðfirðinga um að vera ekki á ferðinni fyrr en í birtingu. Tvær skriður féllu á svæðinu í nótt og hreif önnur með sér húsið Breiðablik. 

Björgunarsveitarmenn voru að fara í hvíld þegar skriðan féll um klukkan þrjú í nótt en þeir héldu áfram störfum í ljósi atviksins, að sögn Guðjóns Más Jónssonar, björgunarsveitarmanns og full­trúa Al­manna­varna í aðgerðum á Seyðis­firði. 

Ekki er útlit fyrir að gerðar verði tilraunir til að færa húsið aftur í dag. 

„Við erum bara að skoða stöðuna, bíða eftir að það birti og við sjáum upp í fjallið. Það er ljóst að þessir verktakar sem hafa verið að hreinsa bæinn eru ekki að fara að vinna þarna, til að byrja með alla vega,“ segir Guðjón í samtali við mbl.is. 

Guðjón Már Jónsson á skrifstofu sinni fyrir austan.
Guðjón Már Jónsson á skrifstofu sinni fyrir austan. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Of mikil hætta er á frekari skriðum svo mögulegt sé að athafna sig á svæðinu enn sem komið er. 

„Við bara sjáum ekki þarna upp þannig að við vitum ekki nákvæmlega hver staðan er,“ segir Guðjón.

Styttir upp á morgun

Húsið var mannlaust en það er í eigu erlends aðila. Ekki er vitað til þess að hann sé á landinu. 

Mikil úrkomuákefð var á Seyðisfirði í gærkvöldi og í nótt. Í gærkvöldi voru þau svæði þar sem fólk í húsum var beðið um að gæta varúðar stækkuð. Í nótt féllu tvær skriður úr Nautaklauf sem er sami farvegur og stærsta skriðan á þriðjudaginn féll úr. 

Húsið Breiðablik færðist um 50 metra með skriðunni.
Húsið Breiðablik færðist um 50 metra með skriðunni. Ljósmynd/Veðurstofan

Búist er við að fari að draga úr úrkomuákefð þegar líður á morguninn og vonir standa til að ástandið skáni við það en svo gæti bætt í úrkomu seinnipartinn. Spár gera ráð fyrir því að það stytti upp þegar líður á morgundaginn.  

Vegna aðstæðna eru íbúar beðnir um að fylgjast vel með fréttum og vera ekki á ferðinni fyrr en í birtingu, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi.

mbl.is