Guðrún Líf Björnsdóttir jógakennari er spennt fyrir jólunum enda verður hún á nýjum stað á jólunum. Hún klæðir sig vanalega upp á um jólin og leyfir sér ýmislegt þegar kemur að mat.
Guðrún Líf segir ástandið í dag krefjandi en hún hefur reynt að nota tímann eins vel og hún getur til að læra meira í ljósmyndun.
„Hvað varðar jóga, þá hef ég iðkað það heima í stofu allt þetta ár, eða frá því ég kom heim úr jógakennaranámi á Balí rétt fyrir síðustu jól. Þegar kemur að ferðalögum, þá finnst mér ekki verst að geta ekki ferðast sjálf heldur það að geta ekki tekið á móti ferðalöngum til Íslands. Við kærastinn minn, Víkingur Heiðar Arnórsson, erum með ferðaþjónustufyrirtækið Exclusive Reykjavík sem tekur á móti hópum frá útlöndum.“
„Já, hef alltaf verið algjört jólabarn og afmælisbarn og alltaf nýtt hvert tækifæri til að halda upp á hvað sem er.“
Hvað gerir þú alltaf á jólunum?
„Ein af mínum helstu jólahefðum er að setja eina til tvær gjafir undir jólatréð í Kringlunni. Það er frábær söfnun fyrir þá sem fá engar gjafir á jólunum. Síðastliðin ár höfum við mamma gert það að hefð að fá okkur jólaplatta í Hannesarholti. Það er eitthvað svo jólalegt við að rölta Laugaveginn og fá jólamat. Svo þetta hefðbundna eins og að baka sörur, skreyta jólatréð með litla bróður og fjölskylduboðin.“
Ertu dugleg að leyfa þér góðmeti um jólin eða ertu á heilsulínu að gera jóga þá líka?
„Ég leyfi mér alltaf um jólin. Það er partur af jólastemningunni.“
Hefurðu ferðast um jólin?
„Ég hef tvisvar ferðast um jólin. Annars höfum við alltaf haldið okkur heima.
Í fyrra skiptið sem ég fór til útlanda var ég 17 ára skiptinemi á Ítalíu, þar sem ég eyddi jólunum í fjallakofa á snjóbretti í frönsku Ölpunum. Seinna skiptið var ég með fjölskyldunni á Flórída. Bæði skiptin voru skemmtileg tilbreyting en mér finnst best að halda jólin heima.“
Skreytir þú mikið heima hjá þér á jólunum?
„Nei, við setjum yfirleitt bara upp jólatréð og næstum ekkert annað. Ég er hins vegar mjög spennt fyrir næstu jólum þar sem við verðum nýflutt og planið er að setja jólaseríu á pálmatrén sem eru úti í garði.“
Hver er besta jólagjöfin sem þú hefur fengið?
„Fyrsta sem kemur í hugann er hjólið sem kærastinn minn gaf mér í jólagjöf fyrir nokkrum árum. Ekki endilega út af hjólinu heldur hugsuninni á bak við það. En pabbi minn hjólar mikið og hann gaf mér það svo ég gæti hjólað með honum.“
Hvað með verstu gjöfina?
„Ég man ekki eftir að hafa fengið slæma jólagjöf nema þá kannski stærðfræðibók frá mömmu þegar ég var krakki. Ég var svo léleg í stærðfræði og átti að nýta jólafríið í að læra. Mér fannst það alls ekki skemmtilegt.“
Er eitthvað á óskalistanum hjá þér fyrir þessi jólin?
„Já, það er tvennt sem mig langar í. Vatnsheldir gönguskór og soda stream-tæki. Annars er ég að reyna að tileinka mér reglu varðandi gjafir fyrir fjölskylduna, en það er að gefa upplifanir í staðinn fyrir hluti.“