Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra Hafnarfjarðar er margt til lista lagt. Hún gerir glæsilega kjötveislu á jólunum enda veit hún fátt skemmtilegra en að elda.
Rósa Guðbjartsdóttir veit fátt betra en nærandi stund við lestur eða matseld heima hjá sér á Kirkuveginum.
Rósa er mikill sælkeri og eftir hana liggja bækur sem endurspegla ástríðu hennar á mat og hvers kyns ræktun. Ástríðan endurspeglast á heimilinu í fjölda bóka, matjurta, í hænum og hundahaldi. Heimilið er eins og lítið sjálfbært sveitasetur í miðbæ Hafnarfjarðar.
Hjarta Rósu sjálfrar hefur slegið í Hafnarfirði nær allt hennar líf með stuttri viðkomu erlendis og í öðrum bæjum en leiðin hefur alltaf legið heim til Hafnarfjarðar aftur. Hún er með eindæmum jákvæð og horfir dreymnum og bjartsýnum augum til framtíðar, bæði fyrir börnin sín sem fylla hana af stolti á degi hverjum og samfélagið sem hún hefur verið órjúfanlegur hluti af svo lengi. Ástin á lífinu hefur komið henni í gegnum áföll og lífsins áskoranir og líður henni best með marga bolta á lofti.
Ævintýraþrá togaði í fjölskylduna og færði hana til Flórída um tíma. Rósa, sem er stjórnmálafræðingur í grunninn, hefur komið víða við, starfaði lengi vel við blaða- og fréttamennsku og svo sem framkvæmdastjóri Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna frá 2001-2006 þar sem hún er enn formaður stjórnar. Áður en hún settist í stól bæjarstjóra var hún bæjarfulltrúi og ritstjóri hjá Bókafélaginu.
Rósa er gift Jónasi Sigurgeirssyni og eiga þau fjögur börn.
„Ég er dottin í jólagírinn og farin að undirbúa jólahátíðina heima við. Þetta er svo skemmtilegur tími en jafnframt annasamur á vinnustaðnum. Undanfarnar vikur og mánuðir hafa að sjálfsögðu verið óvenjulegir hjá Hafnarfjarðarbæ eins og annars staðar vegna kórónuveirunnar. Ný verkefni og nýjar áskoranir sem gerðu ekki boð á undan sér en hafa verið hrein viðbót við dagleg störf og rekstur bæjarfélagsins. Samhliða er stafræn innleiðing að eiga sér stað sem kallar á allsherjar endurskoðun á skipulagi, hugsun og ferlum. Við höfum lagt áherslu á það að halda öllu gangandi og reynt að gefa í hvað varðar framkvæmdir, viðhald og verkefni til að sýna gott fordæmi. Stóru verkefnin þessa dagana snúa meðal annars að fjárhagsáætlun fyrir komandi ár. Það er í mörg horn að líta.“
Hvernig undirbýrðu jólin fyrir Hafnarfjörð?
„Við höfum verið að koma bænum í jólabúning og leggjum mikið upp úr því að hingað sé notalegt að koma á aðventunni. Hér er allt til alls; frábær kaffi- og veitingahús, fallegar sérverslanir þar sem mikið er lagt upp úr persónulegri þjónustu svo ekki sé talað um hið eina sanna jólaþorp sem sífellt fleiri sækja heim á hverju ári. Hafnarfjörður er orðinn sannkallaður jólabær þar sem fjölskyldur og vinahópar upplifa hlýlega og afslappaða jólastemningu. Það hefur verið sérlega ánægjulegt að sjá hve margir sækja okkur heim úr nágrannasveitarfélögunum og sækja í þann jólaanda sem ríkir í bænum. Jólahúsin í jólaþorpinu, skreytingarnar í kringum það og viðburðirnir draga líka marga að. Í jólaþorpinu er hægt að kaupa listmuni og handverk, sælkeravörur og annað fallegt í jólapakkana.“
Rósa segir að á þessu ári hafi verið ákveðið að setja jólaljósin í miðbænum upp mun fyrr en áður.
„Hvít, mild ljós lífga svo ótrúlega upp í skammdeginu og hafi einhvern tíma verið þörf á því þá er það á þessu hausti. Kveikt var á fyrstu ljósunum, á trjám, staurum og víðar, í seinni hluta október og létu viðbrögðin ekki á sér standa. Íbúar nutu þess strax að gera sér ferð í miðbæinn til að njóta fallegra ljósanna og mildrar birtunnar frá þeim. Ljósin minna okkur á það sem mestu skiptir í lífinu; hlýju, mildi og ástina. Það hefur verið frábært að sjá hve bæjarbúar hafa tekið vel í áskorun um að skreyta snemma í ár og setja ljósin upp. Ég fullyrði að bærinn hafi aldrei skartað eins fallegum ljósum og verið eins fagur og nú. Við erum enn að skreyta og til stendur að gera Hellisgerði að ómissandi viðkomustað fyrir alla fjölskylduna í desember. Hlýleikinn mun ráða ríkjum í Jólabænum Hafnarfirði á aðventunni.“
Hvað gerir þú með bæjarbúum og starfsfólki þínu?
„Stærsti jólaviðburðurinn er þegar jólaþorpið er formlega opnað og kveikt er á jólatrénu á Thorsplani í upphafi aðventunnar. Það er jafnan tilhlökkunarefni og safnast mikill fjöldi fólks saman til að njóta. Síðan hefur tekið við þétt dagskrá á sviði jólaþorpsins allar helgar og ýmsir viðburðir í menningarstofnunum bæjarins alveg fram að jólum. Að þessu sinni stefnir allt í að lítið verði um skipulagða dagskrá en við látum það ekki slá okkur út af laginu og notum reynsluna til að færa okkur í annan farveg þar sem jólalög, óskipulögð dagskrá og óvæntar uppákomur munu setja svip sinn á bæjarlífið. Fastir liðir með starfsfólki í Ráðhúsi Hafnarfjarðar á aðventunni fela í sér jólapeysudag, jólahlaðborð í hádeginu og jólastund þar sem hópurinn hefur komið saman við arineld með kakó og hlýtt á upplestur valins rithöfundar. Hafnarfjarðarbær hefur um nokkurra ára skeið fært öllu starfsfólki sveitarfélagsins jólagjöf, í heild um 2.000 gjafir. Þá sækja stjórnendur rúmlega 70 starfsstöðva glaðninginn hingað í ráðhúsið og færa hann með fallegum kveðjum til alls samstarfsfólksins okkar.“
Ertu mikið fyrir jólin sjálf?
„Já, ég hef alltaf verið mikið jólabarn og finnst aðventan dásamlegur tími. Undirbúningur jólanna og kærleiksrík samvera er í mínum huga það besta við hátíðirnar. Að njóta tónlistar, félagsskapar við fjölskyldu og vini, góðs matar og almennra kósíheita er það sem skiptir öllu máli. Gleðin felst í að geta notið litlu hlutanna með þeim sem standa hjarta þínu næst. Að setjast við kertaljós yfir kakóbolla og smáköku með góðum vini eða glugga í nýju jólabækurnar kemur mér í hið eina sanna jólaskap.“
Hvað gerir þú alltaf fyrir jólin heima hjá þér?
„Fyrir utan að skreyta heimilið jafnt og þétt fram að jólum baka ég alltaf smákökur, ekki síst til að fá ilminn í húsið. Mér hefur alltaf þótt mikilvægt að búa ekki til streitu fyrir jólin og vil hafa aðventuna friðsæla og rólega. Jólalög, kerti og ljós eru nóg fyrir mig. Stemningin í miðbæ Hafnarfjarðar er mjög að mínu skapi og skrepp ég auðvitað allar helgar í jólaþorpið, kíki í verslanirnar og gjarnan á kaffihús í leiðinni.“
Eru einhver jól eftirminnilegri en önnur?
„Við fjölskyldan höfum þrisvar haldið jólin í öðru landi og óneitanlega verða þau eftirminnileg. Í fyrsta skiptið í Tampa á Flórída þar sem við hjónin bjuggum með elstu sonum okkar tveimur um tíma og svo í Laguna Beach í Kaliforníu þar sem mágur minn býr ásamt fjölskyldu. Á báðum stöðum var það fyrst og fremst veðurfarið sem gerði jólastemninguna ólíka því sem maður annars er vanur. Að spóka sig á ströndinni á aðfangadag og standa á stuttbuxum að steikja kalkúnann úti í garði er nokkuð sem lifir í minningunni. En upp úr stendur að ytri umgjörðin skiptir ekki máli, snjór eða sól, kalt eða hlýtt, lifandi tré eða gervi! Hin sanna jólagleði kemur innan frá.“
Hvað skiptir þig mestu máli í lífinu?
„Góð andleg og líkamleg heilsa er það mikilvægasta í lífinu og að börnunum mínum líði vel og séu glöð og hraust. Að vera í góðum samskiptum við samferðafólkið mitt skiptir mig líka miklu máli og að geta horft jákvæðum augum fram á við þótt á móti blási. Ég reyni að temja mér það en það er ákvörðun að láta ekki bugast við áföll og þá er mikils virði að geta laðað fram ljósið í hjartanu. Í öllu andstreymi höfum við alltaf eitthvað til að þakka fyrir og með því að leiða hugann að því komumst við í gegnum flesta hluti og getum jafnvel styrkst og vaxið. Þakklæti gerir kraftaverk.“
Er eitthvað sem þig dreymir um í jólagjöf á þessu ári?
„Nei, ekkert sérstakt. Við í fjölskyldunni höfum ekki vanið okkur á að panta eitthvað í jólagjafir hvert frá öðru. Jólagjafir eiga að mínu mati að koma á óvart og vera persónulega valdar. Og er það að sjálfsögðu hugurinn að baki sem skiptir öllu máli. Ég neita því þó ekki að það er alltaf gaman að fá einhverja góða bók til að lesa um hátíðirnar. En fyrst og fremst dreymir mig um ást og frið öllum til handa.“