„Ótrúlegt hvað allir eru samtaka“

Margrét og Berglind í fjöldahjálparstöðinni í kvöld.
Margrét og Berglind í fjöldahjálparstöðinni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þau voru ótrúleg viðbrögðin sem við fengum,“ segir Margrét Dögg Guðgeirsdóttir Hjarðar, sjálfboðaliði í Múlasýsludeild Rauða krossins, um þá staðreynd að af öllum þeim fjölda sem flýja þurfti Seyðisfjörð í gær þurfti enginn að gista í fjöldahjálparstöðinni á Egilsstöðum.

„Það er mikill samhugur hérna og þannig gátum við komið öllum í hús í gærkvöldi, fólk var hér á hótelum, gistihúsum, bústöðum og í heimahúsum.“

„Hér skráðum við um 560 manns,“ segir Berglind Sveinsdóttir, formaður deildarinnar, en þær ræddu við blaðamann mbl.is í fjöldahjálparstöðinni á Egilsstöðum í kvöld.

Auk þessara 560 hafi fleiri skráð sig í gegnum hjálparsímann 1717.

Frá fjöldahjálparstöðinni á Egilsstöðum.
Frá fjöldahjálparstöðinni á Egilsstöðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Senda varning austur

„Þetta hefur gengið alveg ótrúlega vel,“ segir Margrét. „Við erum búin að fá ótrúlega mikla hjálp alls staðar að – af öllu landinu einfaldlega.“

Berglind bendir á að fólk hafi sent ýmiss konar varning austur á land, bæði með vörubílum og flugi. Um er að ræða matvörur; brauð, kökur og sælgæti, auk annars.

„Það er ótrúlegt hvað allir eru samtaka,“ segir Berglind. „Það er rosalegur samhugur á öllu landinu,“ bætir Margrét við.

Mikil óvissa

Spurð um líðan fólksins segja þær erfitt að lýsa henni. Fólk sé skiljanlega enn að átta sig á ástandinu.

„Þetta er mikil óvissa. Auðvitað er fólk bara í áfalli og veit ekki hvað er fram undan. Sem er náttúrulega ótrúlega erfitt,“ segir Margrét.

Spurð hvort boðið hafi verið upp á áfallahjálp fyrir þá sem hana þurfa kveður Berglind já við.

„Við höfum verið með hóp af flottu fólki sem er að veita áfallahjálp, bæði hópinn okkar hér fyrir austan og svo fengum við aðstoð frá Akureyri,“ segir hún. Margir hafi nýtt sér þá þjónustu.

Þær ítreka að hægt sé að leita á fjöldahjálparstöðina og leita áfallahjálpar.

„Það er bara að koma hingað og kippa í einhvern sem er merktur Rauða krossinum, og biðja um viðtal við viðbragðshópana okkar.“

mbl.is