Rýmingar í gildi til morguns hið minnsta

Eyðileggingin er gríðarleg.
Eyðileggingin er gríðarleg. Ljósmynd/Lögreglan

Rýming Seyðisfjarðar og hluta Eskifjarðar verður í gildi í allan dag og staðan fyrst endurmetin í fyrramálið. Þetta var ákveðið eftir fund almannavarna, aðgerðarstjórnar á Austurlandi og Veðurstofunnar, sem lauk nú á tólfta tímanum.

Minnst ellefu hús á Seyðisfirði hafa orðið fyrir skemmdum vegna aurskriða sem féllu á bæinn í gær. Ein skriða féll innan við Búðará snemma í morgun en ekki er talið að hún hafi valdið miklum skemmdum. Skriðan gefur hins vegar vísbendingar um að enn sé óstöðugleiki í jarðlögum.

Unnið er að stöðumati á innviðum eins og rafmagni, vatnsveitu, fráveitu og fleira, að því er segir í tilkynningu frá lögreglu.

Kort/mbl.is

Rafmagn fór af hluta bæjarins í gær en er að miklu leyti komið á að nýju. Tækjahús fjarskiptafélagsins Mílu er þó meðal þess sem keyrt er á varaafli, sem á að duga fram á mánudagskvöld.

Nokkrar götur á Eskifirði voru rýmdar í gær þegar í ljós kom að sprungur í gamla Oddskarðsveginum, ofan við bæinn, höfðu stækkað. Sérfræðingar frá ofanflóðavakt Veðurstofunnar, Vegagerðinni og Fjarðabyggð meta aðstæður á vettvangi í dag og er vonast eftir niðurstöðu fljótlega eftir hádegi.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Ljósmynd/Lögreglan
mbl.is