Sprungur komið í ljós við skriðusárið

Sprungur hafa komið í ljós í dag.
Sprungur hafa komið í ljós í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sprungur hafa komið í ljós í kringum skriðusár við Nautaklauf, þaðan sem stóra skriðan féll ofan í byggðina við Seyðisfjörð í gær. Af þeim sökum var ákveðið að rýmingarsvæði innan svokallaðrar A-línu hættumats skyldi vera lokað í dag.

Fram kemur í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Austurlandi að svæðið hafi verið skoðað í dag með hjálp flygilda.

Veðurstofa Íslands muni fara yfir gögnin í kvöld og í fyrramálið, en tekið er fram að vatnsþrýstingur hafi farið minnkandi í jarðvegi.

Neyðarstig enn í gildi

„Aðgerðarstjórn og Samhæfingastöðin hafa nýtt daginn til að skipuleggja komandi hreinsun og björgunarstörf og setja upp áætlanir þegar óhætt verður að fara inná hættusvæðið,“ segir í tilkynningunni.

Neyðarstig almannavarna sé enn í gildi á Seyðisfirði eftir að aurskriður féllu á bæinn í gær og íbúar hafi ekki enn snúið aftur.

mbl.is