Sprungur komið í ljós við skriðusárið

Sprungur hafa komið í ljós í dag.
Sprungur hafa komið í ljós í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sprung­ur hafa komið í ljós í kring­um skriðusár við Nautak­lauf, þaðan sem stóra skriðan féll ofan í byggðina við Seyðis­fjörð í gær. Af þeim sök­um var ákveðið að rým­ing­ar­svæði inn­an svo­kallaðrar A-línu hættumats skyldi vera lokað í dag.

Fram kem­ur í til­kynn­ingu frá al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra og lög­reglu­stjór­an­um á Aust­ur­landi að svæðið hafi verið skoðað í dag með hjálp flygilda.

Veður­stofa Íslands muni fara yfir gögn­in í kvöld og í fyrra­málið, en tekið er fram að vatnsþrýst­ing­ur hafi farið minnk­andi í jarðvegi.

Neyðarstig enn í gildi

„Aðgerðar­stjórn og Sam­hæf­inga­stöðin hafa nýtt dag­inn til að skipu­leggja kom­andi hreins­un og björg­un­ar­störf og setja upp áætlan­ir þegar óhætt verður að fara inná hættu­svæðið,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Neyðarstig al­manna­varna sé enn í gildi á Seyðis­firði eft­ir að aur­skriður féllu á bæ­inn í gær og íbú­ar hafi ekki enn snúið aft­ur.

mbl.is