Þurftu að rýma hjúkrunarheimilið

Ákveðið var að rýma allt bæjarfélagið í gær.
Ákveðið var að rýma allt bæjarfélagið í gær. mbl.is/Eggert

Vel gekk að rýma hjúkrunarheimilið Fossahlíð og heilsugæsluna á Seyðisfirði í kjölfar aurskriðu sem féll á bæinn í gær. Þetta segir Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunnar Austurlands, í samtali við mbl.is.

Sex heimilismenn hjúkrunarheimilisins Fossahlíðar á Seyðisfirði voru fluttir á hjúkrunarheimilið Dyngjuna á Egilsstöðum og sex fengu inn á Umdæmissjúkrahúsinu á Neskaupsstað. Þá munu þrír heimilismenn dvelja í heimahúsum hjá aðstandendum.

Engar hindranir urðu á flutningi heimilismanna vegna aurskriðanna eða rigningarinnar, en Guðjón segist afar ánægður með þá sem aðstoðuðu við rýminguna, sem og starfsfólk heimilanna á Neskaupstað og Egilstöðum, en það hafi brugðist hratt og vel við þegar þurfti að rýma bæinn.

mbl.is