„Vonar að allir fái þak yfir höfuðið fyrir jólin“

Jóhanna Íris Gígja ætlaði að vera á Ítalíu um jólin …
Jóhanna Íris Gígja ætlaði að vera á Ítalíu um jólin en plönin breyttust. Ljósmyndari/Hákon Kjalar

Jóhanna Íris Gígja, löggiltur fasteignasali á fasteignasölunni Stakfelli, ætlaði að halda jólin á Sikiley en er ekki viss um að af því verði. Jólaóskin hennar er sú að heimilislausir fái úrbætur fyrir jólin. 

Jóhanna hefur starfað sem fasteignasali í 17 ár. Hún er með ólæknandi húsadellu enda fylgir það líklega starfinu. Hún ætlaði að halda jólin á Sikiley en plönin gætu breyst.

„Nánar tiltekið í Taormina sem er fallegur bær rétt norðan við Catania sem er austan megin á Sikiley. Vegna ástandsins í heiminum vitum við ekki á þessari stundu hvort þau áform ganga eftir. Ég bjó á Ítalíu í eitt ár þegar ég var nítján ára og hef verið heilluð af Ítalíu allar götur síðan. Maturinn er auðvitað dásamlegur en það er ekki síst þessi gamla menning, fólkið og tungumálið sem heillar. Ítalir eru opnir og ófeimnir að tjá sig, hvort sem það er í kjörbúðinni eða umferðinni, og það heillar mig alltaf að fylgjast með fólkinu og stemningunni.“

Er mikið jólabarn

Hvaða hug berðu til jólanna?

„Ég er mikið jólabarn og hef gaman af því að sjá umhverfið lýsast upp með fallegum skreytingum og þessari sérstöku stemningu sem er einhvers konar blanda af eftirvæntingu og stressi. Ég skreyti sjálf ekki mikið heldur set upp hluti sem eru mér kærir og hafa fylgt mér lengi. Ég hef mikið af kertum, set greni í vasa og spila jólalög frá 1. desember.“

Hvað gerir þú alltaf fyrir jólin?

„Ég nýt aðventunnar. Byrja snemma að skreyta, baka og hlusta á jólalög. Í raun er aðventan mér mikilvægari en jólin sjálf. Ég fer mikið á söfn og kaffihús og hef sérstaklega haft gaman af því að fara á jólamarkaðinn í Ásmundarsal þar sem ýmsir listamenn sýna verk sín og bjóða til sölu. Jólamarkaðurinn er skemmtileg uppákoma sem ég vona að sé orðin að hefð því það er svo gaman að fá tækifæri til að sjá fjölbreytileika íslenskrar myndlistar samankominn á einum stað. Ég er mikill aðdáandi íslenskrar myndlistar og á mér uppáhaldslistamenn, jafnt samtíma sem liðna.“

Ætlar að prófa að steikja laufabrauð

Jóhanna hefur aldrei steikt laufabrauð fyrir jólin.

„Í ár stendur til að bæta úr því. Enda er laufabrauðsgerð skemmtileg hefð sem gaman er að halda í og gera að sérstakri samverustund fjölskyldu og vina.“

Ertu dugleg að kaupa handa þér eitthvað fallegt um jólin?

„Það stendur til að fjárfesta í listaverki eftir unga íslenska listakonu, við erum með nokkrar í huga sem við ætlum að heimsækja og skoða verk hjá. Ég hef undanfarið mikið verið að skoða samtímaverk íslenskra listakvenna. Við eigum fjöldann allan af einstaklega hæfileikaríkum listakonum og mér finnst að þær mættu fá aukið vægi í umræðunni.“

Hugarðu mikið að fatnaði og tísku fyrir jólin?

„Ég huga ekkert meira að tísku fyrir jólin en aðra tíma ársins. Ég nota hins vegar tækifærið og nota sparilegri fatnað eins og kjólana mína meira. Mér finnst gaman að klæða mig upp, fara í bæinn, á safn og svo á kaffihús eða út að borða. Eins er ég duglegri að vera sparilega klædd í vinnunni.“

Hvað keyptir þú síðast í fataskápinn?

„Síðast keypti ég mér geggjaða dúnkápu frá Filippu K og stóran ullartrefil frá Acne Studios. Dásamlegar flíkur fyrir kuldaskræfuna mig. Ég nota þær mjög mikið þessa dagana.“

Ljósmyndari/H'akon Kjalar

Besta gjöfin frá börnunum um jólin

Hver er besta gjöfin sem þú hefur fengið á jólunum?

„Gjafirnar frá strákunum mínum slá alltaf í gegn. Það er alltaf jafn yndisleg tilfinning að upplifa tilhlökkunina í augum þeirra þegar ég opna gjöfina sem þeir hafa vandað sig að gera í skólanum og pakkað fallega inn. Ég á marga fallega muni eftir þá og þeir eru í sérstöku uppáhaldi.“

Hvað er í mat á jólunum?

„Á jólunum elda ég alltaf hreindýr og er með humarsúpu í forrétt. Það sem er í eftirrétt er hins vegar breytilegt. Með hreindýrinu hef ég villisveppasósu, trönuberjasultu, heimagert rauðkál, waldorfsalat og hvítlaukssteikt rósakál. Á síðasta ári breytti ég aðeins út af vananum og ákvað að grilla bæði hreindýr og dádýr. Það var alveg ofboðslega gott og mikil stemning sem fylgdi því að grilla á aðfangadag.“

Þegar kemur að hefðum úr barnæsku þá er Jóhanna frekar frjáls frá þeim.

„Ég held svei mér þá að eina jólahefðin sem ég held í sé að hlusta á þegar jólin eru hringd inn klukkan sex. Það þykir mér mikil stemning. Ég var á Íslandi um jólin í fyrra en mörg undanfarin ár hef ég verið erlendis og þykir skemmtilegt að upplifa jólastemninguna á hverjum stað. Það er til dæmis mikill munur á jólastemningu í Kaupmannahöfn eða Los Angeles eins og gefur að skilja en hver staður hefur sinn sjarma og það er gaman að fá tækifæri til að upplifa ólíkar hefðir og menningu.“

Berst fyrir bættum aðbúnaði heimilislausra

Hvað dreymir þig um að gerist þessi jólin?

„Undanfarið hef ég verið að beita mér fyrir bættum aðbúnaði heimilislausra í borginni. Þetta er hópur sem hefur orðið út undan í umræðunni á tímum kórónuveirunnar að mínu mati en er mikilægt að halda vel utan um, því oft og tíðum er þetta fólk sem ekki lætur mikið í sér heyra. Mér þætti virkilega gott að sjá úrbætur fyrir þennan hóp sem allra fyrst og vonandi verða komnar varanlegar lausnir á ýmsum þáttum sem að þessum hópi snúa fyrir jól.“

Hlakkar til ferðalaga á næsta ári

Til hvers hlakkar þú á nýju ári?

„Við maðurinn minn eigum skútu í Karabíska hafinu. Hún er núna á eyjunni Grenada en til stendur að sigla henni yfir til Martinique. Ég hlakka mikið til þess.

Ég hef mest gaman af því í mínu starfi að fylgja fólki frá upphafi söluferlis til enda. Að veita persónulega þjónustu sem felst í því að aðstoða við uppröðun fyrir ljósmyndatöku sem er mjög mikilvægur þáttur söluferlis og snýr að því að hámarka virði eignarinnar. Það er einna mikilvægast í söluferlinu að myndirnar endurspegli það besta sem eignin hefur upp á að bjóða og því getur undirbúningur fyrir myndatöku skipt sköpum. Að undirbúningi loknum mæti ég svo á staðinn með atvinnuljósmyndara sem sérhæfir sig í myndatöku húsnæðis. Þessu ferli er svo fylgt eftir með opnu húsi eftir að eignin er komin á netið og ég er sjálf á staðnum í opnu húsi. Þá fer ég með mínum viðskiptavinum að skoða væntanlegt nýtt heimili, aðstoða við ákvörðunartöku og velti upp möguleikum hverrar eignar fyrir sig. Það er virkilega gaman að fá að taka þátt í því ferli að aðstoða fólk að finna sér nýtt heimili og því mjög gefandi að fá tækifæri til að veita persónulega þjónustu.“

Elskar vinnuna sína

Jóhanna hefur séð um sölu á virkilega fallegum húsum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og fyrir austan fjall.

„Auk þess er ég aðstoða við hönnun innanhúss á íbúð sem verið er að gera upp, mjög skemmtilegt verkefni þar sem ég fæ nokkuð frjálsar hendur um val á innréttingum, gólfefnum og litum ásamt uppröðun innbús og vali á listaverkum.“

Jóhanna er búsett á tveimur stöðum í dag.

„Annars vegar bý ég í Garðabæ þar sem drengirnir mínir ganga í Sjálandsskóla og hins vegar á eyjunni Traustholtshólma. Þar er ég einmitt stödd núna þar sem við erum að ganga frá húsinu okkar fyrir veturinn. Í eyjunni, sem er 23 hektarar að stærð, er laxveiði, mikið fuglalíf og fjölbreyttur gróður – sannkölluð paradís.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: