„Ég sá bara húsin koma niður“

Fjölskyldan var glöð í bragði þegar blaðamann bar að garði, …
Fjölskyldan var glöð í bragði þegar blaðamann bar að garði, en vikan hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Seyðfirðingarnir Guido Bäumer og Vigdís Klara Aradóttir sneru aftur til Seyðisfjarðar í kvöld ásamt sonum sínum þeim Matthíasi, sem er sjö ára, og Marek, þrettán ára.

Fjölskyldan þurfti að yfirgefa leiguhúsnæði sem hún dvaldi í í kjölfar skriðunnar á föstudag, en hún var mætt með farangurinn á pallinum fyrir framan inngang hússins, sem stendur við regnbogagötu bæjarins, þegar blaðamann mbl.is bar að garði.

Þegar hann spyr hvernig fjölskyldunni líst á að vera snúin aftur til síns heima hrópar Matthías: „Gaman!“

„Bakkaðu, bakkaðu!“

„Við vorum mjög hrædd. Það heyrðust drunur og þetta var skelfilegt,“ segir Guido.

Rifjuðu þau upp þegar stærsta skriðan féll.

„Pabbi, manstu þegar við vorum að kíkja á vinnusvæðið, þá sagði mamma: Hey! Bakkaðu, bakkaðu!,“ segir Matthías.

Til útskýringar segir Guido: „Ég var nefnilega með bílinn þegar þetta byrjaði. Ég sá þetta ekki strax. Við byrjuðum að hlaupa og ég byrjaði að beygja til baka á fleygiferð. Það var erfitt að sjá þetta því það var svo mikil þoka. Ég sá bara húsin koma niður, ekki moldina. Fólk var að hlaupa og öskra. Svona var það,“ segir hann.

Engar skriður að koma

„Þegar ég var að fara heim var ég mjög grátandi því við komumst ekki heim út af straumi og drullu, við fórum bara beint í Herðubreið og þá var ég ennþá leiður,“ segir Matthías.

„Þá fór ég að gá, og það var allt í lagi þá því það voru engar skriður að koma.“

Að vonum er fjölskyldan þakklát að geta loks slakað á á Seyðisfirði yfir jólin.

mbl.is