Hver hefur sína sögu að segja

Aurskriðan eirði engu á leið sinni niður að sjávarsíðunni á …
Aurskriðan eirði engu á leið sinni niður að sjávarsíðunni á föstudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hver Seyðfirðing­ur hef­ur sína sögu að segja, frá þeim ham­förum sem átt hafa sér stað í firðinum und­an­farna sól­ar­hringa. 

Fjöldi þeirra sem hafa gefið sig á tal við blaðamann mbl.is á Eg­ils­stöðum þekk­ir ein­hvern sem var í hættu stadd­ur þegar stærsta skriðan æddi inn í byggðina síðdeg­is í gær. Ljóst er að tengsl­in inn­byrðis eru náin og feg­in­leik­inn áþreif­an­leg­ur yfir því að ekki nokk­ur maður skyldi slasast. 

Marg­ir lýsa mikl­um til­finn­inga­leg­um tengsl­um sín­um við þau sögu­frægu og ald­ar­gömlu hús sem hafa skemmst eða eyðilagst.

Al­mennt hafa Seyðfirðing­ar þó sýnt fá­dæma æðru­leysi gagn­vart þeim ósköp­um sem dunið hafa á þeim. Marg­ir virðast reyna að gera það besta úr þeim aðstæðum sem uppi eru.

Sögufræg og aldargömul hús skemmdust eða eyðilögðust.
Sögu­fræg og ald­ar­göm­ul hús skemmd­ust eða eyðilögðust. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Börn­um gef­in leik­föng

Inni á Héraði eru nú fjöl­marg­ar fjöl­skyld­ur sem leggja þurftu á flótta úr firðinum. Dæmi eru um að versl­un­ar­eig­end­ur þar hafi gefið börn­um ým­iss kon­ar leik­föng til þess að stytta þeim stund­ir á meðan þau eru fjarri heim­il­um sín­um.

Sjálf­boðaliðar Rauða kross­ins bentu fyrr í kvöld á að ýms­an varn­ing hafi drifið að, víða af land­inu, frá fólki sem vill leggja sitt af mörk­um

Seyðfirðing­um hef­ur enda orðið tíðrætt um djúp­stætt þakk­læti fyr­ir þann hlýhug sem þeir hafa fundið fyr­ir síðustu daga.

Frá fjöldahjálparstöð Rauða krossins á Egilsstöðum í kvöld.
Frá fjölda­hjálp­ar­stöð Rauða kross­ins á Eg­ils­stöðum í kvöld. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Hleypt heim við fyrsta tæki­færi

Al­manna­varn­ir nýttu dag­inn í dag til að skipu­leggja þau hreins­unar- og björg­un­ar­störf sem fram und­an eru. Einnig voru sett­ar upp áætlan­ir um hvað gera skuli þegar óhætt verður að fara inn á svæðið sem nú er lokað vegna skriðuhættu. 

Neyðarstig al­manna­varna er enn í gildi á Seyðis­firði. Áfram verður farið yfir gögn um vatnsþrýst­ing í firðinum á morg­un.

„Og að sjálf­sögðu verður fólki sem býr hér hleypt heim við fyrsta tæki­færi. Hvort það verður á morg­un eða hinn dag­inn, ég get ekki svarað því,“ sagði Jens Hilm­ars­son, varðstjóri hjá lög­regl­unni og vett­vangs­stjóri, í sam­tali við mbl.is fyrr í dag.

mbl.is