Brynja Björk Birgisdóttir safnstjóri heldur ódæmigerð jól að eigin sögn. Hún hefur gert sér far um að mynda ekki fastar jólahefðir undanfarin ár. Eftir að yngri dóttir hennar lést eftir langa baráttu við krabbamein og eldri dóttir hennar flutti að heiman hefur hún haldið alls konar jól.
„Sverresborg er útiminjasafn, borgarminjasafn og því fylgir líka Sjóminjasafnið í Þrándheimi og rústir miðaldakastalans. Við erum með heilmikla jóladagskrá og stóran jólamarkað svo það er í nógu að snúast þessa dagana.“
Hvað hefurðu verið lengi búsett í Noregi?
„Ég flutti fyrst til Þrándheims árið 1994. Ég flutti svo aftur heim á móti straumnum árið 2011. Ég fékk fljótt heimþrá aftur til Noregs og sneri aftur hingað árið 2016. Íslenskir vinir mínir vilja meina að ég sé agalega norsk og norskir vinir líta á mig sem Norðmann með íslensku ívafi.“
Hvernig eru hin dæmigerðu jól hjá þér?
„Jólin hjá mér eru ódæmigerð má segja. Ég hef gert mér far um að mynda ekki fastar jólahefðir undanfarin ár. Ég hef gert það sem mig hefur langað til það árið. Eftir að yngri dóttir mín lést eftir langa baráttu við krabbamein og eldri dóttir mín flutti að heiman hef ég haldið alls konar jól. Með vinafólki á lúxushóteli í París, hjá vinkonu í norskum smábæ og nú síðast í sumarbústað í Skorradal. Í ár stendur til að halda jól hjá dóttur minni, tengdasyni og litlu ömmustelpunni minni sem búa í Tromsø í Norður-Noregi. Eina dæmigerða hefðin í nokkur ár hefur verið að eyða einni helgi á aðventunni hjá dóttur minni, þá bökum við og gerum eitthvað jólalegt saman. Nú þegar hún er komin með fjölskyldu býst ég við að það myndist aftur fastari hefðir með ömmuhlutverkinu.“
Brynja segir Norðmenn nota jólareykelsi á aðventunni, svokallað kóngareykelsi.
„Sú lykt er orðin ómissandi hjá mér á aðventunni. Svo er pinnakjöt, þurrkuð og söltuð lambarif borin fram með rófustöppu og kartöflum, fastur liður á jólamatseðlinum.“
Hvað gera Norðmenn öðruvísi en við Íslendingar?
„Norsku jólin eru að miklu leyti lík þeim íslensku. Ég er vön að segja að það sé lítill menningarmunur á okkar helstu siðum og venjum, aðeins litbrigði. Jólin eru hringd inn klukkan fimm á aðfangadag. Fjölskyldur og gjarnan stórfjölskyldan borða saman og taka upp gjafir eins og á Íslandi. Jólaboð eru á jóladag, jólamessur, jólatónlist og samvera er líkt og við þekkjum á Íslandi.“
Brynja er með fallegt jólatré á jólunum.
„Ég er ein af þeim sem verða að hafa lifandi tré og alls ekki of snemma í desember. Þegar ég hef ekki verið heima yfir sjálfa jólahátíðina hef ég valið að setja ekki upp hefðbundið grenitré, en finnst samt huggulegt að taka fram eitthvað af jólaskrauti og ljósum. Þá hef ég gjarnan skreytt fallega lifandi grein með jólatrésskrauti og notið hennar síðustu dagana á aðventunni. Hugmyndin er stolin og stílfærð en tréð er nokkrar lifandi greinar sem heita á norsku „trollhassel“. Greinarnar eru skemmtilega kræklóttar og það er nóg pláss fyrir skraut. Á þetta tré valdi ég skraut sem er stílhreint í hvítu og silfri. Ég notaði skraut sem hefur persónulega merkingu fyrir mig; englavængi fyrir dóttur mína, hjarta fyrir ástina, kúlur sem ég prjónaði sjálf, Georg Jensen-skraut frá móður minni og pappírsstjörnur frá jólamarkaðnum á safninu. Mér finnst notalegt að horfa á tréð á dimmum desemberkvöldum og ylja mér við góðar minningar.“
Hvernig er í Noregi um þessar mundir?
„Í Noregi erum við upptekin af kórónuveirunni og varúðarráðstöfunum eins og heimurinn allur. Það setur sitt mark á allt samfélagið og undanfari jólanna verður öðruvísi í ár. Allt er rólegra og minna félagslíf eins og gefur að skilja. Við í safnageiranum finnum mikið fyrir þessu; engir erlendir ferðamenn, lítið um skólaheimsóknir og ýmsar nauðsynlegar takmarkanir sem setja okkur skorður í starfseminni. Annars reynir fólk að lifa sem eðlilegustu lífi. Útivera er stór hluti af hversdagslífinu hér. Gönguferðir og skíðaferðir í skóginum eru jafnsjálfsagðar hér og sundferðir eru á Íslandi. Sem betur fer er óhætt og hollt að nota skóginn á þessum tímum.“
Brynja segir gaman að vera í Noregi um jólin og að Norðmenn séu skiplagðir um jólin.
„Fólk í Noregi skipuleggur frekar snemma hvar það verður og með hverjum um jólin. Hjá ömmu og afa, heima eða í bústaðnum og þess háttar.“
Hvað gerir þú aldrei á jólunum?
„Ég fer aldrei á jólatónleika.“
Hver er besta jólagjöfin að þínu mati?
„Besta jólagjöfin er að geta verið í fríi og notið rólegra daga með fólki sem manni finnst vænt um. Bestu pakkarnir eru þeir sem segja eitthvað um gefandann, persónulegar gjafir sem hafa merkingu umfram sjálfan hlutinn.“
Er eitthvað á óskalistanum þínum?
„Í ár væri það helst Íslandsferð án sóttkvíar og vesens.
Ég sem er ekki upptekin af nútíma jólasiðum setti fyrir nokkrum árum upp sýningu á jólum til forna. Rannsakaði upphaf jóalsiða allt aftur á bronsöld og víkingaöld, og hvernig þeir þróuðust í siðina sem við þekkjum í dag. Jólabjór og jólasveinar eiga sem dæmi mjög skemmtilegt og ævagamalt upphaf.“