Kjarkur mættur til Seyðisfjarðar

Björgunarsveitarfólk og hundarnir fjórir.
Björgunarsveitarfólk og hundarnir fjórir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjórir fullþjálfaðir snjóflóðaleitarhundar frá Björgunarhundasveit Íslands eru mættir til Seyðisfjarðar ásamt eigendum sínum.

Guðrún Katrín Jóhannsdóttir, ritari í stjórn Björgunarhundasveitarinnar, er ein hundaeigenda á vettvangi ásamt hundi hennar Kjarki, en auk þeirra eru fulltrúar úr hjálparsveit skáta í Reykjavík, flugbjörgunarsveitinni á Hellu og Björgu á Eyrarbakka ásamt hundum sínum, Líf, Rökkva og Perlu.

Guðrún Katrín Jóhannsdóttir.
Guðrún Katrín Jóhannsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Blaðamaður nær tali af henni utan við regnbogagötuna í miðbæ Seyðisfjarðar. Stillt veður og fallegt er í bænum og hefur ekkert rignt frá því blaðamönnum var hleypt á svæðið.  

„Við lögðum af stað á föstudagskvöld og vorum komin í birtingu,“ segir Guðrún en hún segir að sveitin sé öryggisventill fyrir viðbragðsaðila sem þurfa að fara inn á hættusvæðið. „Ef svo illa skyldi fara að fólk yrði fyrir skriðu þá erum við til taks.“

Hópurinn samanstendur af sjálfboðaliðum og tóku þau reyndustu hunda sína með eftir að aðgerðastjórn óskaði eftir þremur til fjórum björgunarhundum. „Við erum öll með okkar eigin hund sem við annaðhvort kaupum eða fáum með öðrum leiðum og þjálfum upp sjálf. Þetta er allt gert í sjálfboðavinnu,“ segir Guðrún

Aðspurð segir Guðrún að ekki hafi staðið á þeim að hjálpa til. „Það eru allir boðnir og búnir að koma hvort sem það er í hreinsunarstörf eða annað

mbl.is