Kynna skipulag heimfarar síðar í dag

Ellefu hús við Hafnarstræti og nágrenni eru skemmd.
Ellefu hús við Hafnarstræti og nágrenni eru skemmd. Ljósmynd/Lögreglan

Neyðarstig almannavarna með rýmingu er enn í gildi á Seyðisfirði og hluta Eskifjarðar.

Almannavarnir og lögreglustjórinn á Austurlandi funduðu með ofanflóðasérfræðingum Veðurstofu Íslands, aðgerðastjórn, vettvangsstjórn og fulltrúum mikilvægra innviða og stofnana á Austurlandi fyrir hádegi, að því er segir í tilkynningu frá lögreglu.

Á Seyðisfirði vinna ofanflóðasérfræðingar Veðurstofu ásamt samstarfsaðilum enn að frekari mælingum á skriðusvæðum. Stendur til að skilgreina sérstök hættusvæði og svæði sem teljast örugg í bænum.

Mun aðgerðastjórn í kjölfarið tilkynna hvernig best sé að skipuleggja heimför íbúa á örugg svæði. Stefnt er að því að kynna skipulagið milli klukkan 14 og 15 í dag.

Í samtali við mbl.is segir Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri almannavarna, að ekki sé hægt að lofa því að svo stöddu íbúar geti farið heim í dag en hugsanlega verði hægt að aflétta rýmingu sumra svæða. Rögnvaldur Ólafsson hjá almannavörnum hefur áður sagt það sama.

Á Eskifirði er unnið að mælingum á Oddskarðsvegi og verður staðan endurmetin síðar í dag. Þar má gera ráð fyrir að niðurstöður mælinga liggi fyrir um klukkan fimm og standa vonir til að aflétta megi rýmingu að hluta eða öllu leyti, að því er segir í tilkynningu frá lögreglu. 

Bent er á að fjöldahjálparmiðstöðin í Kirkju- og menningarhúsinu að Dalbraut 2 er opin í dag.

Ljósmynd/Lögreglan
mbl.is