Útlit betra með lítilli rigningu

Yfirstjórn lögreglunnar á Austurlandi og aðgerðastjórnar á svæðinu sitja nú …
Yfirstjórn lögreglunnar á Austurlandi og aðgerðastjórnar á svæðinu sitja nú á fundi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er búið að vera núna úrkomulaust og er svo sem bara útlit fyrir litla rigningu næstu daga, þannig að það lítur betur út,“ segir Magni Hreinn Jónsson, ofanflóðasérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is um ástandið fyrir austan. Miklar rigningar undanfarna daga hafa valdið aurskriðum með þeim afleiðingum að minnst 10 hús eru ónýt á Seyðisfirði og bærinn í heild sinni hefur verið rýmdur, auk hluta Eskifjarðar.

Magni segir ekki margt nýtt í stöðunni, en að verið sé að meta hlíðarnar sem aurskriðurnar hafi verið að falla úr. Mikilvægast sé að hætt sé að rigna svo að vatn sem situr í jarðveginum minnki.

Yfirstjórn lögreglunnar á Austurlandi og aðgerðastjórnar á svæðinu sitja nú á fundi og í kjölfarið mun yfirstjórn funda með fulltrúum Veðurstofu Íslands, almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og ýmsum viðbragðsaðilum þar sem farið verður yfir aðstæður og framhaldið metið.

mbl.is