Áfram óvissustig vegna skriðhættu

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjórinn á Austurlandi funduðu með ofanflóðasérfræðingum Veðurstofu Íslands, aðgerðarstjórn og vettvangsstjórn í dag. Áfram verður óvissustig vegna skriðhættu í gildi á Austurlandi eftir hamfarir síðustu daga.   

Sérfræðingar Veðurstofu Íslands unnu ásamt samstarfsaðilum með aðstoð sérsveitar ríkislögreglustjóra og björgunarsveita að gagnasöfnun, endurmælingum og uppsetningu nýrra mælipunkta á skriðusvæðunum á Seyðisfirði. Þessi gögn verða skoðuð í kvöld og fyrramálið og frekari ákvarðanir teknar varðandi rýmingu og hreinsun á rýmingarsvæðum á morgun, eftir því er segir í stöðuskýrslu almannavarnadeildar. 

Íbúar á nokkrum svæðum innan rýmingarsvæðisins fengu að huga að eigum sínum í dag með aðstoð björgunarsveita. Haldinn var íbúafundur á netinu í dag á vegum Múlaþings þar sem upplýsingum var komið beint til íbúa og þeim gefinn kostur á að spyrja spurninga.  Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra vinnur nú að uppsetningu þjónustumiðstöðvar í Herðubreið og mun hún vera opin á morgun.

Á morgun verður haldinn íbúafundur fyrir Eskifirðinga kl 18:00.  Fundurinn verður í beinu streymi á heimasíðu Fjarðabyggðar. 

mbl.is