„Þetta er svo óraunverulegt“

Svava Lárusdóttir, Elva Ásgeirsdóttir og Ingibjörg Lárusdóttir.
Svava Lárusdóttir, Elva Ásgeirsdóttir og Ingibjörg Lárusdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er strax farið að tala um uppbyggingu. Það er Seyðisfjörður í hnotskurn, við tökum þetta á hnefanum,“ segja Svava Lárusdóttir, Elva Ásgeirsdóttir og Ingibjörg Lárusdóttir, Seyðfirðingar sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín eftir hamfarir síðustu daga. 

Konurnar búa ýmist í Botnahlíð eða Miðtúni á Seyðisfirði. Þær falla allar undir rýmingaráætlun almannavarna á svæðinu og telja ekki útlit fyrir heimför fyrir jólin. 

„Það er ekkert útlit fyrir það. Við erum rík að fólkinu okkar, foreldrum okkar sem búa heima og eru ekki á rýmingarsvæði svo við eigum alveg í skjól að venda,“ segja Svava og Ingibjörg. Þær féllu undir fyrstu rýmingu á þriðjudag og yfirgáfu þá heimili sín. 

„Við fórum bara með börnin niður í þetta gistirými á Lónsleirunni í öruggt skjól. Við upplifðum okkur ekki örugg með krakkana okkar þarna uppi í hlíðinni.“

Elva féll ekki undir sömu rýmingu og taldi sig örugga á sínu heimili. Það hafi verið þeim mun óraunverulegra þegar að því kom að rýma þurfti Miðtúnið. „Þetta er svo óraunverulegt. Miðtúnið hefur alltaf verið öruggt hérna. Miðjan á bænum hefur alltaf bara verið örugg. Svo er Breiðablik bara komið niður fyrir Miðtúnið og ég vaknaði ekki einu sinni við það,“ segir Elva. „Það erfiðasta við að fara heim er að við erum komin á hættusvæði.“

Svava Lárusdóttir, Ingibjörg Lárusdóttir og Elva Ásgeirsdóttir.
Svava Lárusdóttir, Ingibjörg Lárusdóttir og Elva Ásgeirsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Upplifa sig ekki öruggar 

Konurnar segir að samhugur meðal Seyðfirðinga hafi verið ótrúlegur. 

„Það hefur verið alveg ótrúlegur samhugur og samheldni. Það er svo mikill styrkur í því. Seyðfirðingar eru bara ótrúlegir; ef eitthvað kemur upp á standa allir saman. Við munum öll hjálpast að í gegnum þetta. Það verða allir vinir,“ segja þær. 

Þær hafa upplifað gríðarlega velvild alls staðar að. Rauði krossinn hafi verið með ótrúlegt utanumhald með rýmingunni og vel hafi verið tekið á móti öllum á Egilsstöðum. „Það rignir bara yfir okkur alls kyns væntumþykju.“

Konurnar eru þó ekki vissar um að þær vilji fara heim á ný fyrir jól, jafnvel þó að rýmingu verði aflétt af svæðinu þar sem þær búa. Þeim finnist þær ekki öruggar heima fyrir.

mbl.is