Fellst á tillögu Bankasýslu ríkisins

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur útbúið greinargerð um ráðgerða sölumeðferð á hlutum ríkisins í Íslandsbanka í samræmi við ákvæði laga. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fellst þar með á tillögu Bankasýslu ríkisins um að undirbúningur verði hafinn að söluferli Íslandsbanka.

Banka­sýslan lagði í síðustu viku fram til­lögu til fjár­mála- og efna­hags­ráðherra um að hefja sölumeðferð á eign­ar­hlut­um rík­is­ins í Íslands­banka hf. Lagði stofn­un­in einnig fram sam­hliða minn­is­blað til stuðnings til­lög­unni.

Bjarni hafði áður greint frá því í samtali við mbl.is að honum hugnaðist að sölumeðferð verði haf­in á eign­ar­hlut rík­is­ins í Íslands­banka. Hann vill að ríkið selji fyr­ir nokkra tugi millj­arða í bank­an­um áður en kjör­tíma­bil­inu lýk­ur, en seg­ir að til lengri tíma hljóti mark­miðið að vera að selja all­an eign­ar­hlut rík­is­ins.

Greinagerð fjármálaráðherra og fylgigögn hafa verið send fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og þess óskað að umsagnir nefndanna liggi fyrir eigi síðar en þann 20. janúar 2021. 

Helstu markmið með sölu ríkisins á hlutum í bankanum eru eftirfarandi:

  •  að minnka áhættu ríkisins af svo stórum eignarhlut í fjármálakerfinu;
  •  að efla virka samkeppni á fjármálamarkaði;
  • að hámarka endurheimtur ríkissjóðs af eignarhaldinu og sölu á hlutum;
  • að stuðla að fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma;
  • að auka fjárfestingarmöguleika fyrir innlenda einstaklinga og fagfjárfesta; og ekki síst
  •  að minnka skuldsetningu eða auka svigrúm ríkisins til samfélagslega arðbærra fjárfestinga.
mbl.is