Gátu ekki sótt eigur sínar vegna rafmagnsleysis

Elva og Ísleifur sækja helstu nauðsynjar á heimili sitt.
Elva og Ísleifur sækja helstu nauðsynjar á heimili sitt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íbúar á hættusvæðunum á Seyðisfirði fengu í gær að fara heim í örskamma stund til að ná í  eigur sínar. Sumir íbúar gátu ekki sótt eigur sínar vegna rafmagnsleysis.

Það fólk sem blaðamaður ræddi við sagði það vissulega skrítið að hafa svo skamman tíma til að ná í eigur sínar og velta fyrir sér á hverju það þurfi að halda næstu daga, því alls óvíst er hvort fólk fái leyfi til að fara heim fyrir jólin. Þá eru enn aðrir sem ekki vilja vera í húsum sínum vegna þess að þeir upplifa sig óörugga. 

Eins og sjá má sótti fólk jólapakka, leikföng og föt, en margir hafa verið í sömu spjörunum frá því fyrsta skriðan féll á þriðjudag. 

Elva og Ísleifur sækja helstu nauðsynjar á heimili sitt.
Elva og Ísleifur sækja helstu nauðsynjar á heimili sitt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Blaðamaður fékk að fylgja þeim Ísleifi og Elvu Ásgeirsdóttur að heimili þeirra þar sem þau fengu nokkrar mínútur til að safna saman helstu nauðsynjum fyrir sig og börnin sín. 

Sveinn Óskarsson, björgunarsveitarmaður í björgunarsveitinni Ísólfi, stóð í ströngu í gær við að fylgja fólki inn á hættusvæðið. 

„Þetta eru um það bil 60 heimili og það voru svona einn til tveir sem fengu að fara inn á hvert heimili að sækja brýnustu nauðsynjar,“ sagði Sveinn. 

„Við vorum að reyna að klára þetta þannig að allir fengu að fara fyrir myrkur svo við báðum fólk um að gera þetta eins hratt og hægt var. Það voru allir glaðir að fá að fara, það er mikill skilningur á þessu hérna í bænum. Fólk sótti lyf og ég er til dæmis með veski í vasanum sem einn greip hjá nágranna sínum sem þarf að koma til skila,“ sagði Sveinn. 

Þar sem ekki er rafmagn á mörgum húsum fá sumir ekki að fara inn á heimili sín. „Það er eitthvað í útbænum þar sem fólk fer ekki inn. Við fórum hérna á svæðið þar sem fyrri skriðan fór og að henni en ekkert á svæðið fyrir utan,“ sagði Sveinn. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: