Mælir með að fólk fari í mat til mömmu

Hanna Þóra.
Hanna Þóra. mbl.is/Árni Sæberg

Hanna Þóra G. Thordarson er mikil áhugamanneskja um matargerð. Hún er einstaklega góð í að baka líka og segir bakara leynast í öllum. Kúnstin sé að prófa sig áfram með eitthvað einfalt. 

Hanna Þóra ólst upp við mikla matarást og finnst sjálfri gaman að elda og borða. Hún hefur tengt mataráhuga sinn vinnunni þar sem hún rekur Gallerí Hólshraun og vinnustofu í Hafnarfirði. „Á undanförnum árum hef ég verið að vinna í leir og verið að þróa potta fyrir matargerð. Upphaflega voru pottarnir hugsaðir fyrir brauðbakstur en svo hafa þeir tekið breytingum þannig að þeir henta bæði fyrir bakstur og matseld.“

Hanna Þóra segir jólin tíma hefða og vanafestu.

„Matseðlinum á aðfangadag má alls ekki breyta og er því alltaf það sama í boði. Við erum með humar í forrétt, hamborgarhrygg í aðalrétt og ris´ala´mand í eftirrétt. Ein mandla leynist í eftirréttinum og sá sem fær hana á aukapakka undir jólatrénu.“

Gerir þú piparkökuhús?

„Já, ég geri það en með dyggri leiðsögn móður minnar, Guðfinnu Thordarson arkitekts. Eiginlega hefur hún séð um mestu vinnuna við það undanfarin 15 ár og við á heimilinu reynt að aðstoða. Piparkökuhúsið er alltaf eins og er kastali sem hún hannaði fyrir mörgum árum. Nú eru krakkarnir mínir að verða það stórir að það er spurning hvort það sé ekki kominn tími til að keflið fari yfir til þeirra og þau spreyti sig á kastalanum.“

Hvað með baksturinn?

„Ég baka ekki alltaf það sama. Það fer alltaf svolítið eftir því hvaða stuði ég er í. Yfirleitt baka ég alltaf sörur og þá oftast hindberja- eða bláberjasörur og svo einfaldar súkkulaðikökur. Svo er algjörlega nauðsynlegt að baka lúsíubollur á aðventunni en þær eru mjög vinsælar á heimilinu.“

Skreytir þú með vissum hætti hjá þér?

„Ég byrja að ná í hluta af jólaskrautinu í lok nóvember og finnst það alltaf jafn gaman þar sem það vekur upp minningar. Mikið af jólaskrauti heimilisins hefur tilfinningalegt gildi og á sína sögu sem er sjarmerandi.“

Hvað ætti fólk að gera um jólin sem kann ekki að elda?

„Að fara í mat til mömmu. Að öllu gríni slepptu, þá mæli ég með því að fólk ætli sér ekki of mikið. Byrji bara á einhverju einföldu. Einfalt getur verið gott. Ég held að það ættu langflestir að geta lært að elda. Það er bara spurning að gefa sér tíma, vera örlátur á þolinmæði og hafa jákvætt viðhorf. Það getur verið svo skemmtilegt að búa til stemningu í kringum jólamatseldina. Virkja börnin og makann og fá alla með sér í lið. Eldamennska almennt getur gefið svo mikið af jákvæðri samveru. Að bardúsa saman í eldhúsinu og spjalla. Auk þess sem ég er sannfærð um að það sé mikilvægt fyrir börn að alast upp við matseld á heimilinu. Það mun fylgja þeim út í lífið. Eldamennska er bara eins og svo margt annað. Hún liggur misvel fyrir fólki. Þetta er bara spurning að halda áfram, bæta sig og læra. Það er engin lausn að fá sér túlk í hvert skipti sem þarf að tjá sig á ensku bara af því að maður er ekki góður í ensku. Það eina sem hægt er að gera er að babla sig áfram og láta það ekki á sig fá hvað öðrum finnst.“

Þegar kemur að bakstrinum þá er hún á því að einfalt sé alltaf best.

„Það þarf ekki að baka sjö tegundir af flóknum sortum. Ég held að þeir sem vilja ná tökum á að baka ættu að byrja bara á einhverju einföldu og gefast ekki upp þó svo að allt lukkist ekki við fyrstu tilraun. Það má alveg baka mislukkaðar kökur og getur það vel skapað góðar minningar hjá fjölskyldu þó svo þær séu varla ætar. Má ekki bara segja að það leynist bakari í okkur öllum? Það þarf bara að kafa misdjúpt til að finna hann.“

Bleikar hindberjasörur eru ljúffengar.
Bleikar hindberjasörur eru ljúffengar.

Sörur með hindberjakremi og hvítum súkkulaðihjúp

Magn: 55-100 stk.

Þessi uppskrift er heimatilbúin en í sumar frysti ég hluta af hindberjauppskerunni og langaði að nota berin í nýja útfærsu af sörum. Kökurnar eru bæði góðar og fallegar. Það er smekksatriði hvort kjarnarnir eru sigtaðir frá. Einnig er smekksatriði hvort notað er hvítt eða dökkt súkkulaði en mér finnst þær betri með því hvíta þótt ég geri oft báðar útgáfur.

Forvinna Það er upplagt að baka botnana áður – þeir geymast vel. Það þarf að setja kremið á kökurnar um leið og það er útbúið og síðan er gott að láta kremið harðna í kæli.

Botnar 400 grömm möndlumassi

Það er ekki sama hvaða marsipan er notað. Ég hef verið með það sem fæst í Fjarðarkaupum og þeir pakka sjálfir. Athuga að þetta er kransakökumassi (ekki hjúpmarsipan). Hef notað danska Odense-marsipanið með mismunandi árangri en þar er sykur- og möndlumagnið mismunandi eftir tegundum. Kökurnar hafa lekið og orðið allt öðruvísi nema þegar ég hef notað marsipanið frá þeim með 63% möndlum, þá hefur það gengið ljómandi vel.

1½ dl sykur

2 eggjahvítur

1½ tsk. mulin/steytt kardimomma

Hindberjakrem

225 g hindber (fersk eða frosin)

1 tsk vatn

2 msk sykur (upplagt að nota sultusykur ef hann er til)

1 msk vanillusykur

200 g smjör við stofuhita

2½ dl flórsykur

salt á hnífsoddi

1-2 eggjarauður

Hjúpur 300-400 g hvítt súkkulaði – best að nota hvíta súkkulaðidropa frá Síríusi

Aðferð Botnar Ofninn er hitaður í 175°C (blástur).

Möndlumassi rifinn og blandað saman við sykur, eggjahvítu og kardimommu.

Lengjur gerðar og skornar í bita – hver biti aðeins mótaður og lagður á ofnplötu með smjörpappír (sjá myndband). Einnig má móta kúlur með skeið og þær settar á ofnplötu með smjörpappír (ágætt að strjúka pappírinn með ísköldu smjöri úr ísskápnum). Stærð hverrar köku er smekksatriði, mér finnst betra að hafa þær ekki alltof stórar. Gott að þrýsta aðeins með skeið (dýfa henni fyrst í kalt vatn) á kökurnar þannig að þær fletjist svolítið út, þá eru þær stöðugri þegar þær eru hjúpaðar.

Bakað í 8-11 mínútur. Mikilvægt að fylgjast með kökunum – ofnar geta verið misheitir. Kökurnar látnar kólna.

Hindberjakrem Hindberin sett í pott ásamt sykri og vatni, hrært reglulega. Látið sjóða þar til berin hafa blandast vel sykrinum og allt orðið að mauki. Ef hindberjakjarninn á ekki að vera með er maukið sett í sigti og safinn látinn renna af, látið kólna. Ég sigta yfirleitt kjarnana frá.

Athugið að taka smjörið úr kæli kvöldið áður og eggjarauðuna/r eitthvað áður þar sem mjög mikilvægt er að sama hitastig sé á öllu hráefninu (annars getur kremið yst). Smjör og flórsykur þeytt vel saman. Eggjarauðu/m bætt við, þeytt vel. Vanillusykur, hindberjasafi/hindberjamauk og ögn af salti þeytt saman við í lokin.

Gott er að hella hindberjasafanum hægt (lítið í einu) og þeyta aðeins á milli – þá ystir kremið síður.

Ef illa gengur að blanda öllu saman (eins og það ysti) er hægt að setja kremið í örbylgjuofn í örfáar sekúndur og reyna svo að þeyta aftur.

Gott er að setja smjörkremið í rjómasprautu og sprauta því á aðra hliðina (sléttu hliðina) á hverri köku. Ágætt er að móta lítinn hindberjasmjörtopp – sett í kæli.

Hjúpur Helmingur af hvíta súkkulaðinu látinn bráðna yfir vatnsbaði á lágum hita. Þegar því er lokið er skálin tekin af hitanum og afgangi af súkkulaðinu bætt við og blandað saman þar til súkkulaðið er allt bráðnað. Þá ætti hitastigið á súkkulaðibráðinni að vera rétt.

Kökurnar teknar úr kæli – haldið með fingrunum um hverja köku og dýfið í súkkulaðið. Kakan lögð á fat/disk (súkkulaðihliðin snýr upp) og súkkulaðið látið harðna (ágætt að setja í kæli til að flýta fyrir).

Stundum hef ég dýft kökunum tvisvar (látið harðna á milli) ofan í hvíta súkkulaðið þar sem það nær ekki alltaf að þekja alveg bleika litinn á smjörkreminu en það er alls ekki nauðsynlegt.

Geymsla Kökurnar geymast vel í lokuðu boxi í kæli. Kökurnar má frysta.

Lúsíubollur

30 bollur

Á hverju ári baka ég lúsíubollur – þær eru bæði góðar, fallegar og svo vekja þær góðar minningar frá æskuárum mínum í Svíþjóð. Þessi uppskrift kemur frá mömmu.

Forvinna Það er hægt að setja aðeins minna af geri í deigið og láta fyrstu hefingu verða í kæli yfir nótt.

50 grömm pressuger eða bréf (12 g) þurrger

150 grömm smjör

½ lítri mjólk

½ teskeið salt

2 dl sykur

1 stykki sykurmoli

1 egg – við stofuhita

½ tsk. saffran

12-15 dl hveiti

1 egg – til penslunar fyrir bakstur

Rúsínur, hakkaðar möndlur og perlusykur – eða það sem hverjum og einum finnst best

Aðferð Mjólk og smjör hitað í potti (best að bræða smjörið fyrst og hella mjólkinni út í). Blandan á að vera 37°C eða aðeins minna (sjá: Gerbakstur – góð ráð).

Saffran steytt í mortéli ásamt sykurmola.

Ger, salt, saffranmulningur og sykur sett í skál og blandað saman. Nokkrum matskeiðum af mjólkurblöndunni hellt í – blandað saman þar til allt leysist upp. Afgangi af mjólkurblöndunni hellt saman við.

Helmingur af hveiti settur í skálina – blandað saman.

Eggi bætt við – hrært saman.

Afgangi af hveiti bætt við og hnoðað þar til deigið verður þannig að hægt sé að koma við það án þess að það klístrist við mann – betra að hafa það aðeins blautara en þurrt.

Hveiti stráð yfir deigið og látið hefast í 45-60 mínútur eða þar til það hefur tvöfaldað stærð sína – hafa rakan klút yfir skálinni. Sett á stað þar sem ekki er trekkur.

Deigið sett á hveitistráð borð og skipt í 30 jafna bita.

Mótaðar bollur eða kransar – um að gera að nota hugmyndaflugið. Stundum hafa börnin búið til stafina sína (sjá ýmis dæmi hér fyrir neðan). Skreytt með rúsínum.

Bollunum raðað í ofnskúffu með bökunarpappír og þær látnar hefast með klút yfir í 30-45 mínútur. Nauðsynlegt að hafa gott bil á milli svo að þær klessist ekki saman.

Ofninn hitaður í 250°C ef smábollur eru bakaðar, 225°C fyrir stærri bollur og 225°C ef bakaðir eru stórir kransar.

Penslað með hrærðu eggi og skreytt með perlusykri.

Bakað í ofni:

Smábollur í 5-6 mínútur.

Stærri bollur í u.þ.b. 10 mínútur.

Stórir kransar í 20-25 mínútur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: