Margrét Bjarnadóttir kokkur er einstaklega fær í eldhúsinu. Hún ver aðfangadegi vanalega hjá foreldrum sínum enda er móðir hennar, Þóra Margrét Baldvinsdóttir, einn besti kokkur sem Margrét veit um og einstaklega góð í að ná fjölskyldunni saman um jólin.
Margrét Bjarnadóttir er í fæðingarorlofi um þessar mundir með syni sínum Bjarna Þór sem hún eignaðist nýverið með unnusta sínum Ísaki Erni Kristinssyni. Hún segir dagana mjög misjafna hjá sér en leggur áherslu á hreyfingu og að gera eitthvað uppbyggilegt fyrir sig og fjölskylduna.
„Ég ver miklum tíma með mínu nánasta fólki. En það eru skrýtnir tímar í dag og lítil regla á hlutunum. Mér líður best að hafa marga bolta á lofti og reyni alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni, mér finnst það mikilvægt hreinlega fyrir andlegu heilsuna.“
Hvaða merkingu hafa jólin fyrir þig?
„Ég elska jólin. Jólin síðustu ár hafa einkennst af mikilli vinnu hjá mér því ég var kokkanemi. Ég byrjaði á Geira Smart og kláraði samninginn á Vox Hilton. Það er mikið um að vera í eldhúsum á þessum tíma árs. Svo sú reynsla var krefjandi en þetta var einnig mjög skemmtilegur tími því fólk er í góðu skapi á þessum árstíma og svo er alltaf skemmtilegt að bera fram hátíðarmat.
Ég er svo heppin að eiga þrjú yngri systkini og það hefur verið svo gaman að vera með þeim í jólaundirbúningnum. Baka saman kökur, velja dagatal, skreyta heima og njóta samverunnar. Ég og yngsta systir mín, Guðríður Lína, verjum miklum tíma saman. Við förum á hverju ári og veljum nokkra pakka sem fara í góðgerðarmál.
Mér finnst fátt skemmtilegra en að vera í góðra vina hópi og spila á þessum tíma árs, ekki verra ef það er jólaglögg með. Annars er ég ein af þeim sem geri allt á síðustu stundu, á Þorláksmessu er ég yfirleitt á yfirsnúningi. Ég reyni þó alltaf að koma því við að fá mér Kalda jólabjór í frystu glasi. Það er ákveðin hefð hjá mér. Ég fór í fyrsta sinn í fyrra á jólasýninguna í Ásmundarsal. Mér fannst það æðislegt og kem til með að gera það aftur. Ég get heldur ekki sleppt því að minnast á stemninguna á Jómfrúnni í desember.“
Hvað verður á veisluborðunum um jólin?
„Mér finnst villibráð ómissandi um jólin. Ég er ekki mikið fyrir reyktan mat. Rjúpa er sá allra besti matur sem ég fæ. Í minni fjölskyldu erum við oftast með humarsúpu eða rækjukokteil í forrétt og rjúpur með klassísku jólameðlæti í aðalrétt. Mér finnst ómissandi að hafa waldorf-salatið hennar ömmu, með nóg af sherrí út í! Síðan sér amma yfirleitt um að gera jólaísinn. Ég hugsa að það sé best að amma sjái bara um hann, bróðir mömmu tók hann að sér eitt skiptið en áttaði sig á því að hann setti eggjahvítur í staðinn fyrir eggjarauður þegar fólk var byrjað að gæða sér á ísnum.
Þóra Margrét mamma mín sér alltaf um jólamatinn og gerir það með glæsibrag, enda er hún einn besti kokkur sem að ég þekki.“
Áttu góða minningu frá jólunum frá því þú varst barn?
„Ég er mikið jólabarn og ekki skemmir fyrir að amma mín, Margrét, á afmæli á aðfangadag. Ég á margar góðar minningar af jólunum sem barn. Ég bjó erlendis þegar ég var 5 ára og amma kom yfir jólin. Við vöktum hana með köku og söng. Ég hins vegar átti erfitt með að vakna þann morguninn svo ég vaknaði við hlið ömmu þegar fjölskyldan kom syngjandi inn með kökuna. Það voru ákveðin vonbrigði þar sem ég var ákveðin í að vakna snemma þann morguninn og taka þátt í að undirbúa afmælið hennar.“
Hvernig skreytir þú fyrir jólin?
„Ég og fjölskylda mín erum alltaf með lifandi jólatré, og síðustu ár höfum við verið með furutré. Ég er mjög hrifin af furutréinu.
Svo hef ég í gegnum árin keypt eitt og eitt fallegt jólaskraut til að skreyta heimilið. Ég er er yfirleitt bara með nokkra smáhluti og síðan falleg kerti. Það er svo hlýlegt að vera með falleg kerti á þessum árstíma.“
Hvað gerir þú alltaf fyrir heimilið fyrir jólin?
„Það er ekkert ákveðið sem ég geri alltaf fyrir jólin fyrir utan að hafa heimilið hreint og fínt, mætti segja að heimilið fái líka jólabað.
Svo eru töluvert fleiri kerti í húsinu á þessum tíma.“
Eruð þið fjölskyldan saman eða eruð þið með stórfjölskyldunni?
„Við höfum alltaf verið stórfjölskyldan og rúmlega það. Einhvern veginn tekst mömmu minni alltaf að halda nokkurs konar ættarmót um jólin. Það er mjög skemmtilegt og alltaf mikið líf á heimilinu. Í ár verða svo fyrstu jólin hjá Bjarna Þór syni mínum, það verður skemmtilegt.“
Hefurðu alltaf haft áhuga á matseld?
„Ég hef alltaf haft áhuga á því að borða góðan mat. Mamma mín hefur verið að vinna með mat og það var mikið horft á matreiðsluþætti heima. Upphaflega kviknaði áhuginn út frá því að borða mat, síðan næringarinnihaldi hans og loks að elda hann sjálf. Ég byrjaði að vinna á Happ veitingastaðnum þegar ég var 17 ára og þá fyrst byrjaði áhuginn á matreiðslu. Það er ótrúlega skemmtilegt að prófa sig áfram í eldhúsinu.“
Ætlaðir þú alltaf að mennta þig sem kokkur?
„Ég útskrifaðist sem stúdent úr Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Þaðan fór ég í gegnum klásus í hjúkrunarfræði en hætti þar á öðru ári þar sem að ég var ekki að finna mig í því námi. Tveim sólarhringum seinna var ég búin að skrifa undir nemasamning í eldhúsi. Ég vildi ekki skrá mig í annað háskólanám á þeim tímapunkti, svo mér fannst tilvalið að fara í matreiðslunám þar sem ég hefði mikinn áhuga á matreiðslu og hafði einnig unnið í eldhúsi í nokkur ár. Ég kláraði sveinsprófið í janúar 2020. Nú hef ég skráð mig í lögfræði í HR. Sannkallaður eilífðarnámsmaður.“
Ertu með ákveðið þema þegar kemur að jólapökkum?
„Nei, ekki innihaldið í pökkunum. En yfirleitt er ég með eitthvert þema þegar kemur að því að pakka inn og skreyta, en þemað breytist á hverju ári. Ég hef mjög gaman af skrýtnum pappírum og einhverju sem er fyndið eða skemmtilegt. Í fyrra var ég með svínaþema.
Svo reyni ég eftir bestu getu að gefa ekki gjafir sem safna ryki.“
Mandarínu-pavlóva
6 eggjahvítur
400 g sykur
1 msk. kornsterkja (maísmjöl)
1 1/2 tsk. edik
Aðferð
Hitið ofninn í 120°C. Blandið maísmjöli og sykri saman. Þeytið eggjahvítur og bætið smám saman sykrinum saman við. Hellið edikinu út í þegar eggjahvíturnar hafa náð stífum toppum. Haldið áfram að þeyta þær þangað til marengsinn er orðinn mjög stífur. Setjið á ofnplötu með smjörpappír undir og bakið í 60 mínútur. Látið kólna við stofuhita.
Appelsínukrem
1/2 bolli sykur
2 tsk. kornsterkja
2 egg
2 eggjarauður
1/2 bolli ferskur appelsínusafi
1 msk. sítrónusafi
85 g smjör
Aðferð
Byrjið á því að skera smjörið niður í litla kubba. Blandið sykri og kornsterkju saman í potti. Bætið eggjum og eggjarauðum saman við og hafið helluna miðlungsheita og hrærið stöðugt í blöndunni. Því næst kemur appelsínusafi og sítrónusafi út í. Að lokum setjið þið smjörkubbana smám saman út í og hrærið stöðugt í eða í um það bil sjö mínútur eða þar til blandan hefur þykknað hæfilega. Þegar blandan hefur náð æskilegri þykkt skal taka hana strax af hita og setja í annað ílát. Kælið í 2-3 klukkustundir.
Rjómi
500 g rjómi
sérrí
Aðferð
Þeytið rjómann og bætið sérríinu út í eftir smekk. Þegar pavlóvubotninn er tilbúinn þá er rjóminn settur ofan á. Hellið sína appelsínukreminu yfir. Raðið mandarínum í miðjuna á kökunni og sigtið flórsykur yfir.