Sérfræðingar vanmátu aðstæður

Frá Seyðisfirði.
Frá Seyðisfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Við bjuggumst ekki við skriðu af þessari stærðargráðu og vanmátum aðstæður utan Búðarár þar sem skriðan féll. Við bjuggumst við skriðum, til dæmis í Búðará, en túlkun jarðfræðilegra greininga höfðu ekki gefið til kynna ummerki um stórar forsögulegar skriður þessum stað“, sagði Harpa Grímsdóttir hópstjóri ofanflóðavöktunar Veðurstofu Íslands.

Fjallað er um skriðurnar á Seyðisfirði á vef Veðurstofunnar þar sem meðal annars kemur fram að skriðan utan Búðarár, sem féll um miðjan dag á föstudag, sé sú stærsta sem fallið hefur á þéttbýli á Íslandi.

Vinna er hafin við að koma upp mælitækjum í hlíðum Seyðisfjarðar en þannig verður í framtíðinni hægt að fylgjast með stöðu mála í rauntíma.

Þann 13. desember, tveimur dögum áður en fyrsta skriðan féll á Seyðisfirði, hafði Veðurstofan varað við auknum líkum á skriðuföllum og grjóthruni á Austfjörðum. Mikil úrkoma hafði fallið á svæðinu í aðdraganda skriðufallanna og var uppsöfnuð úrkoma 569 mm á dögunum 14. til 18. desember. Aldrei hefur mælst meiri úrkoma, á jafn stuttum tíma á Íslandi, eins og þessa fimm daga á Seyðisfirði. Til samanburðar nemur rigning í Reykjavík á meðalári um 860 mm,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Snjókoma efst en rigning neðar

Harpa segir veðrið hafa verið nokkuð sérstakt en úrkoman var snjókoma til fjalla en rigning í neðri hluta þeirra.

„Af þeim sökum töldum við ekki mikla hættu á skriðuföllum ofarlega úr fjöllum. Þá hafi ekki verið talið að mikið vatn streymdi á stallana í Strandartindi, sem gnæfir yfir skriðusvæðið,“ sagði Harpa.

Hún bætir við að ofanflóðasérfræðingar Veðurstofunnar höfðu búist við jarðvegsskriðum í líkingu við þær sem féllu fyrstu dagana og að þær gætu farið stækkandi og viðbúnaður og tilmæli um rýmingar hafi miðast við það.

Nokkrir sluppu naumlega undan skriðunni

Þegar stóra skrifan féll á föstudag var búið að rýma hluta af bænum en ekki á öllu því svæði sem skriðan féll. Viðbragðsaðilar og nokkrir íbúar voru á svæðinu og í nágrenninu og sluppu sumir naumlega undan skriðunni. Harpa segir að sú skriða hafi verið annars eðlis en þær skriður sem féllu fyrr í vikunni. 

„Þær athuganir sem farið hafi fram á henni eru aðeins frumathuganir en þær sýna skriðusár sem er allt að 20 m á hæð og svo virðist sem það nái djúpt ofan í setlög sem ekki hafi hrunið úr í árþúsundir,“ sagði Harpa.

Allnokkrar sprungur ganga út frá skriðusárum í hlíðunum ofan bæjarins. Veðurstofan fylgist grannt með aðstæðum til að meta hættuna á frekari skriðuföllum. Eftir að skriður falla getur hrunið áfram úr skriðusárinu í langan tíma en í flestum tilfellum eru þær skriður miklu minni. Hlíðin kann því að verða óstöðug eitthvað áfram og hrunið gæti úr skriðusárum í rigningartíð. Harpa segir ró vera að færast yfir allt svæðið í sunnanverðum Seyðisfirði.

„Mælingar milli daga sýna að hreyfingin hefur hægt á sér, sem eru góðar fréttir. Þá sýna mælingar úr borholum og vatnsritamælum að vatnsþrýstingur fer minnkandi. Tíminn vinnur með okkur meðan ekki rignir og svæðið verður smá saman stöðugra,“ sagði Harpa.

mbl.is

Bloggað um fréttina