Rannveig Tryggvadóttir framkvæmdastjóri Kötlu hefur fundið upp á því að tvískipt jól séu málið fyrir fjölskylduna. Hún segir að það hafi minnkað álagið mikið.
Rannveig Tryggvadóttir á þrjú börn með eiginmanni sínum Benedikt Bjarnasyni og hafa þau fundið sína leið til að láta jólin virka sem best fyrir alla. Jólin eru alltaf annasamur tími fyrir hana í vinnunni.
„Við erum að leggja lokahönd á framleiðsluna á jólavörunum okkar hjá Kötlu. Jólaundirbúningurinn byrjar snemma hjá okkur en í Kötlu byrjum við að framleiða jólavörur í ágúst. Þetta er okkar aðalvertíð og uppáhaldstími.“
Hvernig verða jólin hjá ykkur?
„Við erum með tvískipt jól. Við áttuðum okkur á því á aðfangadag, þegar eftirvæntingin eftir jólunum var alveg að yfirtaka litla kroppa, að biðin bjó til streitu og álag. Við tókum því upp okkar eigin sið og höfum fyrri og seinni jól. Það er ein besta ákvörðun sem við höfum tekið.
Við byrjum aðfangadag á jólabröns, svo opnum við um það bil helminginn af pökkunum á náttfötunum með krökkunum. Þá er hægt að dunda sér við að lesa, elda, leika með dót og spila fram eftir degi. Um kvöldið erum við svo með venjuleg jól þar sem allir eru spariklæddir og borðum jólamatinn. Hjá okkur er þrenns konar aðalréttur þar sem fjölskyldumeðlimir eru með ólíkar matarþarfir. Það er því hnetusteik, hangikjöt og kalkúnn í jólamatinn. Þetta hentar öllum afar vel hjá okkur, alveg frá níu ára til 74 ára, þar sem tengdapabbi borðar alltaf með okkur á jólunum. Við kunnum afar vel við þessa barnvænu hefð og það hefur minnkað jólastressið til muna að gera þetta svona. Ég held að þessi tilraun sé bara komin til að vera í fjölskyldunni.“
Ertu með eitthvað sem þú gerir alltaf fyrir jólin?
„Ég geri alltaf smákökur með börnunum. Við skreytum oft piparkökur á aðventunni sem hverfa yfirleitt beint í litla munna. Svo finnst mér graflax, sörur, kalkúnn og jólabjór ómissandi í desember.
Ég er mikið jólabarn og finnst jólin svo notalegur tími. Ég elska jólaljósin í myrkrinu.
Ég les mikið og er alltaf spennt að lesa jólabækurnar bæði fyrir börnin mín og svo bara sjálf.
Svo finnst mér ofsalega hátíðlegt að fara í miðnæturmessu í Fríkirkjunni á aðfangadagskvöld.“
En aldrei?
„Ég er mikið fyrir að hafa hreint og fínt á heimilinu en ég er samt alls ekki týpan sem rífur allt út úr skápum og endurraðar í geymslunni fyrir jólin. Aðalmálið fyrir mér er að öllum líði vel í huggulegu umhverfi. Eins hef ég aldrei kunnað að meta jólakonfekt eða Mackintosh. Ég elska hins vegar sörur og finnst fullkomlega eðlilegt að borða a.m.k. eina á dag í jólaundirbúningnum.“
Ertu mikil jólakona?
„Ég er mjög mikil jólakona. Finnst svo mikil stemning og rómantík fylgja jólaundirbúningnum.“ Áttu skemmtilegar minningar frá jólunum þegar þú varst lítil stúlka? „Já ég man lyktina af hamborgarhryggnum hennar mömmu, að keyra út pakkana með jólasveinahúfur og svo jólaboðin með stórfjölskyldunni. Að kúra og lesa jólabók á jóladag er einnig hluti af mínum helstu jólaminningum.“
Hvað býrðu til frá Kötlu á jólunum?
„Ég er betri í eldamennsku heldur en bakstri svo það hentar mér vel að gera smákökur úr tilbúnu smákökudeiginu frá Kötlu. Svo skreytum við fjölskyldan saman piparkökuhús með glassúrnum okkar líka. Ég bý líka svo vel að eiga systur sem er listabakari og gerir heimsins bestu sörur fyrir mig.
Ómissandi hluti af jólunum finnst mér líka vera ananasfrómasinn hennar mömmu. Hún gerir alltaf eina aukaskál fyrir mig og mína.“
Hvernig skreytirðu vanalega heima?
„Ég er mest fyrir einfaldar skreytingar, hvítar jólaljósaseríur, kerti og rauða túlípana í vösum. Ætli jólatréð sjálft sé ekki svona skrautlegasta jólaskreytingin heima hjá okkur en það prýða kúlur í öllum litum og listaverk eftir börnin mín.“
Hvað þykir þér vænst um tengt jólahátíðinni?
„Aðallega að njóta þess að vera með þeim sem manni þykir vænt um. Mér þykir afar vænt um jólatrjáaferð sem pabbi stendur alltaf fyrir, fyrsta í aðventu, þar sem við systkinin ásamt mökum og börnum förum saman út í skóg, veljum okkur jólatré og fáum okkur svo heitt kakó og nesti saman. Það er orðinn alveg fastur liður í jólaundirbúningnum. Svo þykir mér mjög vænt um allt tengt börnunum, jólasamsöng í skólanum og jólaföndur.
Jólahittingar með vinahópnum finnst mér alveg ómissandi í jólaundirbúningum líka.“
Hugarðu mikið að fatnaði fyrir alla fjölskylduna?
„Hérna áður fyrr keypti ég alltaf sérstök jólaföt á alla í fjölskyldunni. Í seinni tíð hef ég lært að nýta betur það sem þau eiga, því oftar en ekki voru jólafötin bara notuð nokkrum sinnum. En ég legg mikið upp úr því að allir séu samt fínir á jólunum og verð alltaf að ná hinni fullkomnu jólamynd af þeim.“
Hreyfing skiptir Rannveigu miklu máli. „Þó svo að jólin séu tími afslöppunar og góðs matar finnst mér nauðsynlegt að ná að minnsta kosti lágmarkshreyfingu yfir hátíðirnar. Þá er ég ekki á núllpunkti þegar janúar mætir með myrkrið og hversdagsleikann aftur.“