100 Seyðfirðingar fá ekki að halda jólin heima

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var á meðal þeirra ráðherra sem heimsóttu …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var á meðal þeirra ráðherra sem heimsóttu Seyðisfjörð í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúmlega 100 Seyðfirðingar munu ekki halda jól á heimilum sínum þetta árið vegna stærstu aurskriðna sem fallið hafa á mannabyggðir frá landnámi. Sveitarstjóri Múlaþings segir að alhliða hreinsunarstarf sé langtímaverkefni og að fyrst á dagskrá sé að veita íbúum Seyðisfjarðar áfallahjálp.

Útlit er fyrir enn meira rigningaveður á morgun og næstu daga og því treysta aðilar á vegum Múlaþings sér ekki inná skriðusvæðið og horfa frekar til þess að hefja alhliða hreinsunarstarf þann 27. desember.

„Við urðum að hætta hreinsunarstarfi alveg þegar önnur skriða féll,“ segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, í samtali við mbl.is. „Við höfum nýtt tímann síðan þá til þess að skipuleggja þetta starf,“ bætir hann við. „Menn hófust handa við það í dag að hreinsa til á hafnarsvæðinu.“

Að sögn Björns eru rúmlega 100 Seyðfirðingar tilneyddir að halda jólin annars staðar en heima vegna ástandsins. Þó séu margir sem kjósa að eyða jólunum fjarri heimilum sínum.

mbl.is