Litlar skriður gætu fallið

Frá Seyðisfirði.
Frá Seyðisfirði. Eggert Jóhannesson

Veðurspá á Seyðisfirði gerir ráð fyrir hlýnun upp að átta gráðum á morgun og getur þá snjór farið að bráðna í fjöllum. Þessar aðstæður geta raskað þeim stöðugleika sem hefur myndast í skriðusárunum og má í kjölfarið búast við einhverri hreyfingu á svæðinu og gætu litlar skriður fallið þar sem stóra skriðan féll fyrir helgi.

Samkvæmt upplýsingum frá skriðusérfræðingi á Veðurstofu Íslands verður staðan á rýmda svæðinu endurmetin 27. desember.

„Spár gera ráð fyrir hlýindum á aðfangadag og fram á jóladag og þá gætu fallið litlar skriður í hlutum hlíðanna sem los er komið á vegna skriðufalla undanfarna daga,“ segir skriðusérfræðingurinn Tómas við mbl.is.

Hann segir að vel sé fylgst með öllu svæðinu til að sjá hvernig þróunin verður næstu daga.

Ekki er spáð rigningu á Seyðisfirði næstu daga en Tómas segir að það séu hlýindin sem gætu komið einhverri skriðu af stað.

Hann segir jákvætt að engin rigning sé í kortunum. „Stöðugleikinn batnar dag frá degi og við sjáum ekki annað en að þarna sé allt að þróast til betri vegar eftir því sem dagarnir líða frá því það hætti að rigna.

mbl.is