Nærri 30 tilkynningar um tjón borist

Tólf hús á Seyðisfirði eru talin algjörlega ónýt eftir skriðuföllin.
Tólf hús á Seyðisfirði eru talin algjörlega ónýt eftir skriðuföllin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Náttúruhamfaratryggingu Íslands hafa borist hátt í 30 tilkynningar um tjón vegna aurskriðanna á Seyðisfirði í síðustu viku. Þar af eru tólf tilkynningar um altjón á fasteignum.

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratryggingar, segir í samtali við mbl.is að áætlanir geri ráð fyrir að tjónið hlaupi á rúmum milljarði króna þegar allar tilkynningar hafa borist. Sjóðurinn stendur vel undir áfallinu en í lok síðasta árs var eigið fé sjóðsins 44,1 milljarðar króna samkvæmt ársreikningi síðasta árs.

„Það sem er óvenjulegt við þennan atburð er að það er svo mikið um altjón að við getum fengið skýrari mynd á heildartjónið heldur en í mörgum öðrum tilvikum þó að matsmenn hafi ekki getað farið á staðinn,“ segir Hulda. Því sé hægt að leggja mat á heildarbótafjárhæð þótt enn sé viðbúið að tilkynningar eigi eftir að berast til að mynda um vatnstjón á heimilum sem enn eru á rýmingarsvæði.

Hulda segir mikilvægt að fá tilkynningar inn sem fyrst til þess að flýta megi þjónustu við íbúana. Hvetur hún Seyðfirðinga því til að tilkynna um tjón, sem þeir vita af, á heimili sínu þó svo að umfang þess liggi ekki enn fyrir. Það má gera á heimasíðu Náttúruhamfaratryggingar. Nánari upplýsingar um ferlið má finna hér.

Allar fasteignir á Íslandi falla undir náttúruhamfaratryggingar, sem og allt lausafé sem brunatryggt er hjá tryggingafélögum. Sjálfsábyrgð af fasteignum er 2%, en þó að lágmarki 400.000 krónur, en 200.000 krónur á innbúi.

mbl.is