Sýrlendingur bauð fram hjálp

Seyðisfjörður eftir aurskriður.
Seyðisfjörður eftir aurskriður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Khattab al Mohammad, sýrlenskur enskukennari á Akureyri, var ekki lengi að bjóða fram húsaskjól og hjálp þegar hann heyrði af hamförunum á Seyðisfirði og að um 700 Seyðfirðingar hefðu orðið að flýja heimili sín vegna þeirra.

Sameinuðu þjóðirnar sögðu frá Khattab al Mohammad á vef upplýsingaskrifstofu sinnar fyrir Vestur-Evrópu í gær. Hann auglýsti strax í kjölfar frétta af aurskriðum á Seyðisfirði laus pláss heima hjá sér fyrir einhvern sem gæti þurft á að halda. 

Khattab al Mohammad er frá Aleppo í Sýrlandi en hefur verið búsettur á Akureyri frá árinu 2016. Hann, kona hans, móðir og sex börn hans komu til landsins á vegum Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Eldri börn Khattabs búa hjá þeim hjónum en yngri börnin eru á Akureyri í skóla, þar sem fjölskyldan bjó. 

Þekkir þetta á eigin skinni 

Khattab bauð Seyðfirðingum allt það, sem hann veit af reynslunni, að flóttamenn þurfa á að halda.

„Ég er orðinn hluti af þessu samfélagi,“ sagði Khattab í viðtali við vefsíðu UNRIC. „Ég er bara að rétta fram hjálparhönd, rétt eins og Íslendingar hjálpuðu okkur. Ég hef aldrei komið til Seyðisfjarðar. En Íslendingar sem hjálpa Sýrlendingum hafa heldur aldrei komið til Sýrlands. Þetta er spurning um mannúð.“

Færsla sem Khattab setti á facebook síðu sína í kjölfar …
Færsla sem Khattab setti á facebook síðu sína í kjölfar aurskriða á Seyðisfirði. Ljósmynd/Skjáskot



mbl.is