Flutti til Íslands á aðfangadag

Kveldúlfur Hasan er mikið jólabarn.
Kveldúlfur Hasan er mikið jólabarn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jafn mik­il jóla­börn og Kveld­úlf Has­an er erfitt að finna þótt víða væri leitað. Jól­in skipta Kveld­úlf miklu mál en ekki var haldið upp á jól­in í æsku hans. Hann kom hingað til Íslands í fyrsta skipti á aðfanga­dag árið 1998 og hér hef­ur hann verið síðan þá. 

Kveld­úlf­ur fædd­ist í Bag­hdad í Írak en flutti með for­eldr­um sín­um til Par­ís­ar í Frakklandi þegar hann var tveggja ára. Á unglings­ár­un­um bjó hann í New York í Banda­ríkj­un­um. Þegar hann var tví­tug­ur flutti hann til Íslands og vill hvergi ann­ars staðar vera.

„Ég fann jól­in aft­ur þegar ég flutti til Íslands en í þetta sinn gat ég haldið upp á þau heima þar sem ég kom án fjöl­skyldu minn­ar. Ég kynnt­ist ís­lensku jól­un­um og þá kviknaði strax ást í brjósti mér. Ég taldi mig hafa fundið „vetr­ar­undralandið“, jóla­landið, jóla­æv­in­týralandið, heim­kynni jóla­svein­anna og himna­ríki jóla­barns­ins. Fyr­ir mér var og er ís­lenska jóla­hefðin hin rétta og full­komna. Ég var kom­inn á heima­völl,“ seg­ir Kveld­úlf­ur.

Kveld­úlf­ur hef­ur unnið meira og minna á leik­skóla frá ár­inu 2001 og ger­ir það enn í dag. Hann er einnig í hluta­starfi á skamm­tíma­vist­un fyr­ir börn og legg­ur stund á mennt­un­ar­fræði leik­skóla við Há­skóla Íslands.

„Jól­in voru því miður ekki hald­in í minni fjöl­skyldu. Þrátt fyr­ir það hef ég alltaf verið mjög mikið jóla­barn. Ég man eft­ir jóla­haldi og jóla­skemmt­un í leik­skól­an­um, skól­an­um og í blokk­inni í Par­ís. Mér fannst allt á þeim tíma und­urfag­urt og töfr­andi. Jóla­ljós­in, jóla­skrautið, jóla­lög­in og snjór­inn á vet­urna. Par­ís ljómaði. Gleðin sem fyllti hjarta mitt var ólýs­an­leg, en einnig sorg­in sem fylgdi þegar ég þurfti að fylgja for­eldr­um mín­um aft­ur heim að loknu námi föður míns. „Heim“ þar sem jól­in voru ekki til,“ seg­ir Kveld­úlf­ur.

Byrj­ar á jól­un­um í októ­ber

Hinn 16. októ­ber ár hvert er merki­leg­ur dag­ur í huga Kveld­úlfs en þá held­ur hann upp á nafna- og rík­is­fangsaf­mælið sitt. Hann öðlaðist nafnið sitt og sömu­leiðis ís­lenska rík­is­borg­ara­rétt­inn þann dag árið 2007. Þegar hann er bú­inn að halda upp á þann dag þá byrj­ar hann að und­ir­búa jól­in.

Þegar ég spyr Kveld­úlf hvenær hann byrji að skreyta verður hann að viður­kenna eitt. Hann er hætt­ur að taka niður jóla­skrautið.

„Ég þori varla að tjá mig um þetta en það er saga bak við þetta sem á sér lang­an aðdrag­anda. Öll mín ár á Íslandi hef ég verið kvíðinn fyr­ir þeim degi sem við tök­um jóla­skrautið niður, þ.e.a.s. á þrett­ánd­an­um. Mér hef­ur alltaf þótt hann sorg­leg­asti dag­ur árs­ins og harma að brenna út jól­in. Eft­ir 21 ár af pínu og kvöl á þrett­ánd­an­um ákvað ég þann 6. janú­ar 2020 að leyfa jóla­skraut­inu að vera en tók þó ljós­in úr sam­bandi. Sú ákvörðun hef­ur verið mín besta hingað til, ásamt þeirri að til­einka mér ís­lenska menn­ingu. Já, ég er hætt­ur að taka niður jóla­skrautið. Jafn­vel bíll­inn minn er jóla­skreytt­ur allt árið um kring,“ seg­ir Kveld­úlf­ur.

Kveld­úlfi hef­ur aldrei þótt mjög gam­an af elda­mennsku og því eld­ar hann lítið fyr­ir jól­in. Hann fær þó hangi­kjöt og hefðbund­inn jóla­mat hjá nán­um vin­um sín­um í des­em­ber. Spurður út í jóla­hefðirn­ar tel­ur Kveld­úlf­ur upp lang­an lista af hefðum. Hann borðar eins kæsta skötu og hægt er á Þor­láks­messu, helst bæði í há­deg­is- og kvöld­mat. Hann fer í kirkju­g­arðinn á aðfanga­dag. Föndr­ar og skrif­ar jóla­kort. Býr til jólag­lögg. Kaup­ir nýja jólaflík. Bak­ar og skreyt­ir pip­ar­kök­ur. Fer á jóla­tón­leika eða í jóla­messu. Fer á jóla­ball. Er með jóla­da­ga­tal. Les eina jóla­sögu og fer á skauta á Ing­ólf­s­torgi.

Hann reyn­ir líka eins og hann get­ur að kom­ast til Ak­ur­eyr­ar fyr­ir jól­in, heim­sækja vini sína og kíkja í jóla­húsið. Hann vel­ur líka ein­hverja sem fá dul­ar­fulla jóla­kortið. „Fyr­ir utan þá sem fá alltaf jóla­kort vel ég nokkra ein­stak­linga og sendi þeim jóla­kort með fal­leg­um orðum án þess að geta hver er send­andi. Mann­eskj­an fær óvænt jóla­kort, veit ekki frá hverj­um og inni­held­ur per­sónu­leg og fal­leg orð um hana,“ seg­ir Kveld­úlf­ur.

Boðberi jól­anna

Það má eig­in­lega með sanni segja að Kveld­úlf­ur sé boðberi jól­anna. Hann seg­ir mér litla jóla­sögu frá því þegar hann sendi mann­eskju sem var ekki mikið jóla­barn jólaglaðning á hverj­um degi í heila viku. „Ég man vel eft­ir einni mann­eskju sem ég þekkti fyr­ir mörg­um árum síðan og var nei­kvæð í garð jól­anna og sýndi mik­inn bit­ur­leika í des­em­ber. Mér þótti vænt um hana og ákvað eitt sinn að gefa henni einn lít­inn jólaglaðning ásamt fal­leg­um orðum dag­lega í heila viku. Ég gat komið gjöf­un­um til henn­ar án þess að hvorki hún né neinn ann­ar vissi hver send­and­inn væri. Til­gang­ur­inn var ekki að breyta mann­eskj­unni á neinn hátt en ég fann til mik­ill­ar jólagleði með því að geta glatt hana. Ég hef aldrei játað þetta á mig og tel að hún viti ekki enn hver þessi „leynijóla­sveinn“ var,“ seg­ir Kveld­úlf­ur.

Þótt Kveld­úlf­ur byrji snemma að und­ir­búa jól­in er alltaf eitt­hvað sem hann nær ekki að gera fyr­ir jól­in og hon­um finnst það allt í lagi, þau koma hvort sem er alltaf. Eft­ir að hann hætti að taka niður jóla­skrautið í janú­ar þarf hann líka ekki að hafa áhyggj­ur af því að vera bú­inn að skreyta fyr­ir 1. des­em­ber. Það sem skipt­ir hann mestu máli er að skrifa jóla­kort­in, fara í kirkju­g­arðinn og borða kæsta skötu.

„Saga lífs míns er eins og æv­in­týra­leg jóla­saga sem endaði vel. Sögu­per­són­an fékk að upp­lifa jól í Par­ís í stutt­an tíma þar til ör­lög­in slökktu þau ljós. Síðan tók myrkrið við en per­són­an bar áfram von í brjósti um að fá að faðma jól­in aft­ur. Hún var síðan bæn­heyrð á aðfanga­dag 1998 og fékk bestu jóla­gjöf sem hægt er að óska sér.

Jóla­gjöf­in sú eru ís­lensku jól­in og ís­lenska menn­ing­in. Hún er fólkið sem ég hef kynnst á Íslandi. Hún er tungu­málið sem það fólk not­ar. Hún er lög­in sem Íslend­ing­ar syngja. Hún er þjóðarrétt­ur og mat­ar­venj­ur þeirra. Hún er ís­lenski snjór­inn. Hún er jóla­landið sjálft sem heit­ir öðru nafni Ísland.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: