Beiðni fréttaskýringaþáttarins Kveiks á RÚV um að fá afhent ársreikninga erlendra félaga sem tengjast Samherja hefur verið hafnað af embætti skattrannsóknastjóra.
„Þau gögn sem beiðni yðar lýtur að eru hluti af rannsókn sakamáls og þeirra var aflað í þágu rannsóknarinnar. Fellur beiðni þín því utan gildissviðs upplýsingalaga,“ segir í svari skattrannsóknarstjóra til Kveiks, að því er fram kemur á vef RÚV.
Þar segir að niðurstaða skattrannsóknarstjóra hafi verið kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Starfsemi Samherja í Namibíu hefur verið til rannsóknar um nokkuð skeið í tengslum við meinta spillingu, skattsvik og peningaþvætti. Komu fram ásakanir í þætti Kveiks í nóvember 2019 um að félagið hafi innt af hendi mútugreiðslur til þess að komast yfir aflaheimildir í Namibíu.
Kveikur segir Samherja hafa lýst því yfir á vef félagsins í ágúst að það hafi verið tap á rekstri Samherja í Namibíu árin 2012 til 2018 en að engin gögn hafi fylgt yfirlýsingunni.
Samantekin reikningsskil sem Morgunblaðið fékk aðgang að í ágúst sýndu að dótturfélög Samherja í Namibíu töpuðu nærri einum milljarði króna á umsvifum sínum á árunum 2012 til 2018. Námu rekstrartekjur 41,1 milljarði króna og rekstrarkostnaður 38,9 milljörðum. Að teknu tilliti til afskrifta, fjármagnsgjalda, tekjuskatts og annarra þátta var afkoma félaganna neikvæð á tímabilinu.
Sagði Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja, í Morgunblaðinu í ágúst þessar ofangreindu tölur staðfesta að fullyrðingar sem komið hafa fram á undanförnum mánuðum þess efnis að fyrirtækið hafi „arðrænt“ samfélagið í Namibíu séu ekki á rökum reistar.