Þokkalegar veiðar voru hjá uppsjávarskipum Síldarvinnslunnar og dótturfélagsins Runólfs Hallfreðssonar ehf. á síðasta ári. Nam samanlagður heildarafli skipanna 123,8 þúsund tonnum og var heildarverðmæti hans rétt tæplega 5,3 milljarðar króna.
Fram kemur á vef Síldarvinnslunnar að á árinu 2020 veiddist vel af makríl, kolmunna og síld og var verð á uppsjávarafurðum gott sem skilaði góðri afkomu veiðanna og það þrátt fyrir loðnubrest.
Nam heildarafli Beitis NK á síðasta ári 44,9 þúsund tonnum og verðmæti hans 1,93 milljarðar króna. Skilaði Börkur NK 46,9 þúsund tonna afla að verðmæti 1,98 milljarðar og Bjarni Ólafsson AK kom með 32 þúsund tonn að landi og nam vermæti aflans tæplega 1,4 milljörðum.
Samanlagt tóku vinnslur félagsins við tæplega 170 þúsund tonnum af uppsjávarfiski eða um 37% meira en skipin veiddu.
Þá tók fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á móti 46.882 tonnum af makríl og síld til vinnslu árið 2020. Móttekinn makríll nam 23.098 tonnum og móttekin síld 23.784 tonnum.
Jafnframt tóku fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar samtals á móti 123 þúsundum tonnum af uppsjávarfiski. Verksmiðjan í Neskaupstað tók á móti 106 þúsund tonnum og verksmiðjan á Seyðisfirði tók á móti 17 þúsund tonnum af kolmunna.