Fiskistofa hefur nú tekið dróna til notkunar við eftirlit með nýtingu auðlinda til hafs og vatna, að því er fram kemur í tilkynningu sem birt var á vef stofnunarinnar í dag.
Þar segir að eftirlit með notkun dróna muni nú verða hluti af hefðbundnu eftirliti Fiskistofu og hafa eftirlitsmenn stofnunarinnar fengið kennslu og tilsögn í meðferð tækjanna. Liggja nú öll tilskilin leyfi fyrir.
Fram kemur að drónar verða nýttir til vöktunar í rauntíma þar sem myndefni er ekki safnað og til söfnunar myndefnis í þeim tilfellum þar sem um er að ræða grun um frávik frá lögum og reglum. Vinnsla alls myndefnis fer fram samkvæmt gildandi reglum og fyrirmælum Persónuverndar.