Hafísinn færist hratt frá landi

Hafís hefur dreift úr sér en hann færist nú fjær …
Hafís hefur dreift úr sér en hann færist nú fjær landi. Þróunin getur breyst hratt segir Landhelgisgæslan. Mynd/Veðurstofa Íslands

Landhelgisgæslunni barst í dag mynd af hafís frá Veðurstofu Íslands, norðvestur af Vestfjörðum. Ísspöngin sem var næst landi var aðeins um 23 sjómílur frá landi og var haft samband við skip við ísröndina, að því er fram kemur á vef stofnunarinnar.

Í samskiptunum við skipin á svæðinu kom í ljós að ísinn væri að hreyfast hratt frá landi og norður um. Minni Landhelgisgæslan samt á að aðstæður geta breyst mjög hratt miðað við vindáttir og strauma.

Hafísinn hefur þegar haft áhrif á loðnuleiðangurinn sem nú stendur yfir og nokkur áhrif á veiðar. Fjöldi togara eru nú við veiðar út af Vestfjörðum.

mbl.is