„Nú er þetta í raun komið í hendur fyrirtækisins og bæjarins. Varðskipið er farið af svæðinu og við erum því ekki lengur inni í málinu,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is.
Vísar hann þar til stórs fóðurpramma sem sökk í Reyðarfirði á níunda tímanum í gærkvöldi. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar bárust upplýsingar frá starfsmönnum fiskeldisfyrirtækisins Laxar Fiskeldi ehf. í firðinum um að pramminn væri að sökkva og þegar í stað var haft samband við áhöfnina á varðskipinu Þór. Hún kom til aðstoðar.
Aðspurður segir Ásgeir að pramminn hafi sokkið mjög hratt. „Þetta gerðist allt mjög hratt. Það var í raun ekkert hægt að gera þegar við komum á svæðið þar sem hann var orðinn fullur af sjó,“ segir Ásgeir og bætir við að vont veður hafi verið á svæðinu.
„Hann sökk í raun mjög hratt. Það var vonskuveður og sjólagið mjög erfitt. Það gerði mönnum erfitt fyrir. Það var því ekkert hægt að gera þegar Þór mætir á svæðið.“