Af hverju geta áhrifavaldar ferðast til útlanda?

Áhrifavaldar geta ferðast því þeir fá borgað fyrir það.
Áhrifavaldar geta ferðast því þeir fá borgað fyrir það. Ljósmynd/Pexels/Asad Photo Maldives

Á tím­um heims­far­ald­urs stinga ferðaljós­mynd­ir í stúf á sam­fé­lags­miðlum og oft gríp­ur um sig ákveðin af­brýðisemi út í þann sem birt­ir mynd­ina. Efna­mikið fólk og áhrifa­vald­ar hafa nefni­lega, þrátt fyr­ir mikl­ar ferðatak­mark­an­ir, getað ferðast um víða ver­öld síðastliðna mánuði.

Breska rík­is­út­varpið BBC birti á dög­un­um grein þar sem fjallað var um hvernig áhrifa­vald­ar og stjörn­ur geta ferðast óáreitt um heim­inn. Aldrei hafa verið jafn strang­ar sótt­varn­a­regl­ur í gildi á Bretlandi en þær tóku gildi 5. janú­ar.

Það vakti því at­hygli í bresku press­unni þegar raun­veru­leika­stjarn­an og fyrr­ver­andi feg­urðardrottn­ing­in Zara Hol­land var hand­tek­in á Karíbahafs­eyj­unni Barbados í lok des­em­ber og úr­sk­urðað í máli henn­ar 6. janú­ar. Hol­land var dæmd fyr­ir að brjóta lög um sótt­kví við kom­una til Barbados en henni láðist að halda sig á hót­el­inu sam­kvæmt fyr­ir­mæl­um. 

Í grein BBC seg­ir að marg­ar stjörn­urn­ar sem eru á ferðalagi hafi kom­ist frá Bretlandi áður en strang­ar tak­mark­an­ir tóku gildi og því geti þær enn ferðast. Það er þó bara ein skýr­ing­in. 

Önnur er sú að marg­ir áhrifa­vald­ar og stjörn­ur hafa farið til út­landa í vinnu­ferðir. Áður en regl­urn­ar tóku gildi hinn 5. janú­ar voru vinnu­ferðir til út­landa leyfðar. 

Þá fengu áhrifa­vald­ar og stjörn­ur sam­starfs­samn­inga við ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæki til þess að sýna staði sem fyr­ir­tæk­in eru að hefja markaðssetn­ingu á eft­ir að já­kvæðar frétt­ir af bólu­efni bár­ust. Þetta er greini­legt í sam­fé­lags­miðlafærsl­um áhrifa­vald­anna sem merkja skil­merki­lega fyr­ir­tæk­in í færsl­ur sín­ar og skrifa að um sam­starf sé að ræða. 

Fyr­ir­tækið Tren­dy Tra­vel er meðal áber­andi fyr­ir­tækja í slík­um færsl­um en það sér­hæf­ir sig í að nota stjörn­ur til að aug­lýsa ferðir og áfangastaði. Fram­kvæmda­stjóri Tren­dy Tra­vel Keith Herm­an seg­ir í viðtali við BBC að mánuðirn­ir des­em­ber og fram í mars séu mjög mik­il­væg­ir fyr­ir­tækj­um í ferðaþjón­ustu vilji þau rétta úr kútn­um þegar heims­far­ald­ur­inn verður yf­ir­staðinn. 

„Ferðaráðgjaf­ar og leiðsögu­menn eru all­ir í sama báti; við þurf­um að kom­ast í gegn­um þessa erfiðu tíma, sér­stak­lega næstu mánuði sem er mik­il­vægt sölu­tíma­bil,“ sagði hann í viðtal­inu.

Vel þekkt­ar stjörn­ur á veg­um Tren­dy Tra­vel hafa til dæm­is verið að birta mynd­ir frá áfanga­stöðum á Maldív­eyj­um og Dúbai á síðustu dög­um. Herm­an seg­ir þó að þau hafi nú beðið áhrifa­vald­ana að hætta að merkja fyr­ir­tækið í færsl­ur sín­ar á næstu vik­um vegna aðgerða gegn kór­ónu­veirunni í Bretlandi.

Ljós­mynd/​Pex­els/​Riccar­do Bresciani
mbl.is