Heildarafli 27 þúsund tonnum minni 2020

Uppsjávarskipin voru með rúmlega heildarafla íslenska flotans í fyrra. Uppsjávaraflinn …
Uppsjávarskipin voru með rúmlega heildarafla íslenska flotans í fyrra. Uppsjávaraflinn nam 529 þúsund tonnum. mbl.is/Árni Sæberg

Heild­arafli ís­lenskra fiski­skipa árið 2020 nam 1.021 þúsund tonn­um sem er 3% minna en árið 2019 þegar heild­arafli nam 1.048 þúsund tonn­um. Sam­drátt­ur varð í flest­um teg­und­um sam­kvæmt töl­um Hag­stofu Íslands og var upp­sjáv­ar­afli rúm­lega helm­ing­ur heild­arafl­ans.

Þorskafl­inn 2020 var tæp 277 þúsund tonn sem er rúm­lega 1% meira en hann var 2019. Þá var landað 54 þúsund tonn­um af ýsu í fyrra sem er 7% minna en árið á und­an, 52 þúsund tonn­um af karfa sem er 3% minna en 2019 og rúm­lega 50 þúsund tonn­um af ufsa sem er 14 þúsund tonn­um eða 22% minna en árið á und­an. Í heild nam botn­fiskafl­inn í fyrra 463.176 tonn­um en hann var 481.512 tonn 2019.

Mik­il aukn­ing í mak­ríl

Eng­in loðna var veidd eins og árið á und­an og dróst upp­sjáv­ar­afl­inn sam­an um tæpt pró­sent og nam ríf­lega 529 þúsund tonn­um. Þar af var síld 134 þúsund tonn sem er 3% minna en 2019 og kol­munni 243 þúsund tonn sem er 9% minna en árið 2019. Sam­drátt­ur­inn í kol­munna er sá mesti í einni teg­und milli ár­anna og nem­ur hann 24 þúsund tonn­um.

Hins veg­ar náði ís­lenski flot­inn tölu­vert af mak­ríl og nam mak­rílafl­inn 151 þúsund tonn­um árið 2020 en var ein­ung­is 128 þúsund tonn árið 2019. Aukn­ing­in milli ára nem­ur því rúm­um 23 þúsund tonn­um eða 18%.

Veru­leg­ur sam­drátt­ur varð í skel- og krabba­dýr­um og dróst afli sam­an um 51%.

Meiri afli í des­em­ber

Heild­arafli flot­ans í des­em­ber 2019 var rúm­lega 63 þúsund tonn en nam rúm­lega 73 þúsund tonn­um des­em­ber síðastliðinn og jókst þannig um 16% milli ár­anna. Upp­sjáv­ar­afli jókst úr tæp­um 34 þúsund tonn­um í des­em­ber 2019 í 41 þúsund tonn í des­em­ber 2020 sem er 22% magn­aukn­ing í des­em­ber­mánuði. Botn­fiskafli var um 32 þúsund tonn og þar af var þorsk­ur rúm 18 þúsund tonn, um 10% meira en í des­em­ber 2019.

mbl.is