Frestar fyrstu gjalddögum

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra ákvað sl. föstu­dag að fresta fyrstu gjald­dög­um ferðaábyrgðasjóðs til að koma til móts við ís­lenska ferðaþjón­ustu vegna áhrifa Covid-19-far­ald­urs­ins. Fyrsti gjald­dag­inn verður 1. des­em­ber 2021. Ráðherra hef­ur upp­lýst rík­is­stjórn um málið. Þetta kem­ur fram á vef ráðuneyt­is­ins. 

Hlut­verk sjóðsins er að veita ferðaskrif­stof­um lán til að end­ur­greiða ferðamönn­um greiðslur sem höfðu verið greidd­ar vegna ferða sem var af­lýst eða þær afp­antaðar á tíma­bil­inu 12. mars til og með 30. sept­em­ber 2020. Um­fang lán­veit­inga sjóðsins nem­ur rétt rúm­lega þrem­ur millj­örðum króna. Lán­tök­um ber að end­ur­greiða sjóðnum inn­an sex ára og var fyr­ir­hugað að fyrsti gjald­dag­inn yrði hinn 1. mars 2021. Um­svif ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tækja hafa verið óveru­leg vegna Covid-19-heims­far­ald­urs­ins og er sú staða enn uppi. Eðli­legt er því að fresta gjald­daga á fyrstu af­borg­un. 

„Til­gang­ur sjóðsins er að aðstoða ís­lensk ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæki við að standa við skuld­bind­ing­ar sín­ar og styrkja viðspyrnu þeirra að lokn­um kór­ónu­veirufar­aldr­in­um. Því er ljóst að inn­heimtuaðgerðir vegna gjald­daga 1. mars gætu leitt til gjaldþrota og myndu vinna gegn mark­miðum sjóðsins. Hags­mun­um rík­is­sjóðs og ferðaskrif­stofa er því best borgið með því að gjald­dag­an­um verði frestað til 1. des­em­ber,“ seg­ir Þór­dís Kol­brún í frétta­til­kynn­ingu. 

Ráðherra mun und­ir­rita reglu­gerð sem staðfest­ir breytt­an gjald­daga.

mbl.is