Vísitala byggð á stofnmælingu botnfiska að vori verður áfram grunnurinn að fiskveiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar vegna grásleppuveiða, en ráðgjöf stofnunarinnar mun taka nokkrum breytingum og viðbótum.
Þetta er niðurstaða stofnunarinnar í kjölfar endurskoðunar á stofnmati og ráðgjafarreglu, en stofnunin hlaut gríðarlega gagnrýni í fyrra vegna þeirrar aðferðafræði sem hún beitti og leiðrétti í kjölfarið ráðgjöf sína fyrir grásleppuvertíðina síðasta sumar.
Fram kemur í tilkynningu á vef Hafrannsóknastofnunar að hagsmunaaðilum hafi verið kynntar niðurstöðurnar í dag og telur stofnunin að „ef þessari nýju ráðgjafarreglu verði fylgt séu miklar líkur á að hrognkelsastofninn verði nýttur á sjálfbæran hátt í samræmi við markmið varúðarnálgunar.“
Úr endurskoðuninni kom tækniskýrsla sem birt var á vef stofnunarinnar í dag og er í henni útlistuð aðferðafræði nýju ráðgjafarreglunnar.
Gerir nýja reglan ráð fyrir því að nýta stofninn með sama veiðistuðli og stefnt var að með fyrri aflareglu. „Ákvörðunin byggir á því að ráðgjöfin árin 2014-2019, sem takmarkaðist við þennan veiðistuðul, virðist hafa leitt til sjálfbærrar nýtingar miðað við þróun vísitalna SMB eftir 2014. Ráðgjöfin mun því byggja á vísitölu SMB þar sem vísitala frá ráðgjafarárinu vegur 70% á móti 30% frá vísitölu fyrra árs, sem er eins og í fyrri reglu.“
„Loks er bætt við aðgerðamarki (Itrigger), sem ekki var í fyrri reglu, þar sem veiðistuðullinn lækkar línulega niður í gildi sem samsvarar lægstu þekktu vísitölu frá SMB (Ilim). Neðan við það gildi verður veiðistuðullinn 0 fyrir það ár og hefur þá annaðhvort 70% eða 30% vægi.“