Hefja útboð á þremur nýjum björgunarskipum

Skip Landsbjargar hafa staðið fyrir sínu en eru komin til …
Skip Landsbjargar hafa staðið fyrir sínu en eru komin til ára sinna. Björgunarskipið Oddur V. Gíslason er smíðað árið 1985, en elsta skipið, Ásgrímur S. Björnsson, var smíðað 1978. mynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Stærsta einstaka fjármögnunarverkefni í sögu Landsbjargar hefur verið hrint af stað og hefur félagið auglýst útboð á þremur nýjum björgunarskipum, að því er segir í fréttatilkynningu. Þar segir að útboðið nær til alls EES-svæðisins og að gert sé ráð fyrir að smíði fyrsta skipsins geti hafist fyrir haust og að skipin verði komin í notkun fyrir árslok 2023.

Er útboðið liður í endurnýjun skipaflota félagsins en félagið býr yfir þrettán skipum og var elsta björgunarskipið smíðað árið 1978. „Björgunarskip Landsbjargar eru mikilvægur hlekkur í þéttu öryggisneti björgunarsveitanna. Þau eru mönnuð sjálfboðaliðum og sinna að jafnaði á bilinu 70 til 110 útköllum árlega,“ segir í tilkynningunni.

Útboðið fer fram á grundvelli samkomulags við dómsmálaráðuneytið um að ríkið fjármagni hluta verkefnisins og undirrituðu þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, auk Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, nýlega viljayfirlýsingu um endurnýjun flotans næstu tíu árin.

Þá segir að „undirbúningur útboðsins hefur staðið yfir frá miðju síðasta ári. Landsbjörg hefur með dyggri aðstoð Ríkiskaupa og vinnuhóps ráðuneyta sniðið útboðslýsinguna að hlutverki skipanna. Að verkinu hefur einnig komið nýsmíðanefnd björgunarskipa frá Landsbjörgu en í henni eiga sæti reynslumiklir sjálfboðaliðar úr áhöfnum björgunarskipa Landsbjargar.“

mbl.is