Marel kaupir í rótgrónu iðnaðarfyrirtæki í Noregi

Stærstur hluti tækjabúnaðar í verksmiðjunni kemur frá Marel.
Stærstur hluti tækjabúnaðar í verksmiðjunni kemur frá Marel. Ljósmynd/Marel

Marel hefur gengið frá kaupum á 40% hlut í norska fyrirtækinu Stranda Prolog sem framleiðir hátæknilausnir fyrir laxaiðnað, að því er segir í fréttatilkynningu frá Marel. Fyrirtækin tvö hafa einnig gert með sér samkomulag um stefnumótandi samstarf um þróun nýrra lausna fyrir laxaiðnaðinn.

Fram kemur að kaupin verða framkvæmd með kaupum á útistandandi hlutum og hlutafjárhækkun sem verður nýtt til að styðja við frekari vöxt Stranda Prolog.

„Vöruframboð Stranda Prolog fyrir frumvinnslu laxaiðnaðar auk lausna sem notaðar eru í fiskeldi falla vel saman við vöruframboð Marel og færa félagið nær því að geta boðið viðskiptavinum sínum upp á heildarlausnir sem ná yfir allt vinnsluferlið í laxaiðnaði,“ segir í fréttatilkynningunni

Fyrirtækin hafa átt í samstarfi um nokkurt skeið við uppsetningu heildarlausna fyrir laxaframleiðendur og er talið að fyrirtækin verði í stakk búin til að þjóna stærri hóp viðskiptavina í gegnum alþjóðlegt sölu- og þjónustunet Marel.

Með 100 starfsmenn

„Með því að hefja formlegt samstarf erum við í betri stöðu til að umbylta laxaiðnaðinum, stuðla að samfelldu flæði og nýtingu gagna í gegnum allt vinnsluferlið. Þannig tryggjum við framboð öruggra gæðamatvæla til neytenda um allan heim. Ég er mjög ánægð með að hefja samstarf með félagi sem deilir gildum og framtíðarsýn Marel og ég hlakka til þeirrar samvinnu sem er framunda,“ segir Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri fiskiðnaðar hjá Marel.

Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir.
Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir. Eggert Jóhannesson

„Þetta skref er viðurkenning á vinnuframlagi og árangri starfsfólks okkar, fjölskyldna þeirra og samfélagsins í Kristiansund. Traustur grunnur hefur nú verið lagður fyrir frekari vöxt og verðmætasköpun,“ segir Klaus Hoseth, forstjóri Stranda Prolog.

Stranda Prolog var stofnað sem fjölskyldufyrirtæki árið 1946 og er í dag í fararbroddi í þróun hátæknilausna fyrir laxaiðnað auk þess sem félagið framleiðir lausnir fyrir fiskeldi. Stranda Prolog er með 25 milljónir evra í árstekjur og 100 starfsmenn sem eru staðsettir í Kristiansund í Noregi.

mbl.is