Búinn að gera ferðaplan fyrir sumarið

Fannar Magnússon er búinn að gera lista yfir þá áfangastaði …
Fannar Magnússon er búinn að gera lista yfir þá áfangastaði sem hann langar til að heimsækja í sumar. Ljósmynd/Aðsend

Fannar Magnússon er hrifnastur af því að ferðast innanlands. Hann og kærasta hans, Björk Björnsdóttir, eru búin að gera lista yfir staði sem þau langar til að heimsækja í sumar. Þar á meðal eru Fjaðrárgljúfur, Þakgil, Kverkfjöll og Herðubreið.

Fannar er fæddur og uppalinn á Egilsstöðum og vinnur í Sjóvá. Hann er einnig sjúkraflutningamaður og að læra sjúkraflutninga. Í vetur fékk hann einstakt tækifæri til að taka myndband af hreindýrahjörð fyrir austan og náði að fljúga dróna yfir hjörðina sem kippti sér ekkert upp við það. Hann segir að það hafi verið einstök upplifun. 

Hvernig ferðalögum ert þú hrifnastur af?

„Ég er hrifnastur af ferðalögum innanlands, finnst landið okkar bjóða upp á endalausa möguleika, hálendið togar alltaf mest í mig og kemur þar tjaldið sterkt inn.

Þegar ég ferðast fylgir hjólið mitt eða fjallaskíðin með og reyni ég að upplifa landið á alla vegu. Dróninn fylgir mér hvert sem ég fer og ég reyni að vera duglegur að mynda.“

Á leiðinni að Fardagafossi.
Á leiðinni að Fardagafossi. Ljósmynd/Aðsend

Hefur þú ferðast mikið um Ísland undanfarið árið?

„Síðustu ár hef ég verið talsvert á ferðinni og þá aðallega til þess að komast á fjallaskíði og hjóla með vinum og kunningjum um allt land. Landið okkar býður upp á frábærar skíðabrekkur og hjólaleiðir og finnst mér upplifunin skemmtilegri á þennan máta.“

Hefur þú lent í einhverjum mögnuðum aðstæðum í náttúrunni?

„Vá, þetta er stór spurning. Það að hafa náð að fljúga drónanum inn í hreindýrahóp án þess að þau kipptu sér upp við það er sjálfsagt eitt það merkilegasta sem ég hef náð á mínum ferðalögum. Ég var alveg orðlaus lengi á eftir og trúði varla að ég hefði náð þessu. Þennan dag vorum við einnig búin að vera að skoða Svínafellsjökul þannig að þessi dagur fer á topplistann hvað upplifun varðar.“

Á Snæfelli.
Á Snæfelli. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér einhverja uppáhaldsáfangastaði á Íslandi?

„Strútsfoss inni í Fljótsdal fyrir innan Egilsstaði er falin perla. Þangað er auðvelt að ganga og vel merktir stígar. Fossinn er í hópi hæstu fossa á Íslandi og mæli ég eindregið með honum. Einnig er Snæfellið einn af mínum uppáhaldsstöðum og það er algjör draumur að skíða þar á vorin. Fjallið er hæsta fjall utan jökla og teygir sig upp í 1.833 m.“

Strútsfoss.
Strútsfoss. Ljósmynd/Aðsend

En erlendis?

„Åre í Svíþjóð er algjör draumur fyrir einstaklinga sem elska að skíða eða hjóla og er fullt af alls konar afþreyingu. Þegar ég kom þangað fyrst féll ég alveg flatur fyrir þessum stað; hæfilega stór bær og mjög fjölbreyttar brekkur til þess að renna sér í eða hjóla.“

Stefnirðu á einhver ferðalög innanlands eða utanlands á þessu ári?

„Ég og kærastan mín erum með lista fyrir sumarið sem okkur langar til þess að skoða og er þetta það sem er komið á hann: Fjaðrárgljúfur, Þakgil, Múlagljúfur, Vestfirðir, Langanes, Kverkfjöll, Askja og Herðubreið og eiga án efa fleiri staðir eftir að bætast við listann.“

Við Strútsfoss.
Við Strútsfoss. Ljósmynd/Aðsend

Hvert langar þig til að ferðast eftir að heimsfaraldrinum lýkur?

„Við erum að plana ferð til Slóvakíu núna í sumar þar sem frúin er að útskrifast úr læknisfræði. Kannski erum við bjartsýn á að það verði hægt en við vonum það besta. Við allavega gerum eitthvað skemmtilegt þegar hægt verður að ferðast óhindrað aftur. Frúin vill fara að sörfa einhvers staðar, ég fylgi bara með.“

Fjallaskíðin eru aldrei langt undan hjá Fannari.
Fjallaskíðin eru aldrei langt undan hjá Fannari. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is