Fyrsta löndun loðnu í tæplega þrjú ár átti sér stað á laugardag þegar Polar Amaroq kom með tæplega 700 tonn af frystri loðnu til Eskifjarðar, en loðnubrestur var síðastliðnar tvær vertíðir. Hófu starfsmenn Tandrabergs ehf. löndun snemma morguns og lauk henni um kvöldið.
Fram kemur á vef Síldarvinnslunnar að Polar Amaroq hafi fengið aflann í trollhólfinu austur af landinu og hafi loðnan reynst „hin fallegasta og voru um það bil 40 stykki í kílóinu. Nokkur áta var í loðnunni“. Þá segir að aflinn hafi fengist að mestu í þremur holum. Fyrsta holið fékkst í mjög slæmu veðri og gaf einungis 20 til 30 tonn.
Sigurður Grétar Guðmundsson, skipstjóri á Polar Amaroq, segir það góða tilfinningu að vera farinn að veiða loðnu á ný. Skipið hélt til veiða á ný strax að löndun lokinni og er áhöfnin þegar búin að ná einu 300 tonna holi sem nú er unnið hörðum höndum við að frysta.