Fyrstu loðnunni í þrjú ár landað á Eskifirði

Fyrsta loðnulöndun á Íslandi í tæplega þrjú ár fór fram …
Fyrsta loðnulöndun á Íslandi í tæplega þrjú ár fór fram á Eskifirði á laugardag. Ljósmynd/Sigurður Grétar Guðmundsson

Fyrsta lönd­un loðnu í tæp­lega þrjú ár átti sér stað á laug­ar­dag þegar Pol­ar Amar­oq kom með tæp­lega 700 tonn af frystri loðnu til Eskifjarðar, en loðnu­brest­ur var síðastliðnar tvær vertíðir. Hófu starfs­menn Tandra­bergs ehf. lönd­un snemma morg­uns og lauk henni um kvöldið.

Fram kem­ur á vef Síld­ar­vinnsl­unn­ar að Pol­ar Amar­oq hafi fengið afl­ann í troll­hólf­inu aust­ur af land­inu og hafi loðnan reynst „hin fal­leg­asta og voru um það bil 40 stykki í kíló­inu. Nokk­ur áta var í loðnunni“. Þá seg­ir að afl­inn hafi feng­ist að mestu í þrem­ur hol­um. Fyrsta holið fékkst í mjög slæmu veðri og gaf ein­ung­is 20 til 30 tonn.

Sig­urður Grét­ar Guðmunds­son, skip­stjóri á Pol­ar Amar­oq, seg­ir það góða til­finn­ingu að vera far­inn að veiða loðnu á ný. Skipið hélt til veiða á ný strax að lönd­un lok­inni og er áhöfn­in þegar búin að ná einu 300 tonna holi sem nú er unnið hörðum hönd­um við að frysta.

mbl.is