Birgir Dýrfjörð, sem sagði sig núverið úr uppstillingarnefnd Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir alþingiskosningarnar í haust, hefur sent Loga Einarssyni formanni Samfylkingarinnar opið bréf þar sem hann gagnrýnir hvernig staðið var að máli Ágústs Ólafs Ágústssonar innan flokksins.
Ágúst Ólafur verður ekki á lista fyrir kosningarnar eftir að meirihluti uppstillingarnefndar hafnaði tillögu hans um að hann sjálfur myndi gefa eftir oddvitasætið og taka annað sætið.
Ástæða þess að Birgir sendir Loga opið bréf eru útskýringar Loga á því hvernig komist var að niðurstöðu í máli Ágústs Ólafs. Birgir segir að honum hafi „verið sparkað niður framboðslista flokksins“. Logi sagði í fjölmiðlum eftir að niðurstaðan var gerð kunn að stuðst hefði verið við lýðræðislegt ferli en því er Birgir ósammála.
„Þú sagðir að þetta væri lýðræðislega fengin niðurstaða í 14 manna uppstillingarnefnd. Sú skýring þín er alröng. Niðurstaðan var studd með fjórum atkvæðum í stjórn fulltrúaráðsins. (Fjórmenningaklíku að hætti marxista). Þar er okkar lýðræði í dag,“ skrifar Birgir. Hann segir fulla þörf á því að upplýsa flokksfólk um það hvernig komist var að ákvörðun í málinu.
Birgir segist hafa óskað eftir því að stuðningur við Ágúst Ólaf yrði kannaður innan uppstillingarnefndar með atkvæðagreiðslu en því hafi ekki verið vel tekið. Þess í stað hafi málið farið til fulltrúanefndar. Hann spyr hvernig staðið hafi verið að atkvæðagreiðslunni í fulltrúaráðinu, hvort hún hafi farið fram í heyranda hljóði eða hvort atkvæðum hafi verið safnað með símtölum formanns.
„Ágústi verður sparkað út af þingi með skóför (fjórmenningaklíkunnar) á rassinum. Orðstír klíkunnar mun lengi lifa. Ekki síst vegna þess að þessi skrípaleikur mun draga mjög úr fylgi flokksins í komandi kosningum. Og valda lamandi illdeilum,“ spáir Birgir.
Þá skorar hann á Loga að setjast niður með stjórn fulltrúaráðsins í þeim tilgangi að endurskoða samþykkt um að hafna tilboði Ágústs Ólafs um að hann skipi annað sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi í haust.