Ekki er gert ráð fyrir að gefið verði út nýtt hlutafé í Síldarvinnslunni við skráningu félagsins á aðalmarkað Nasdaq Iceland, segir Gunnþór Ingvason, forstjóri fyrirtækisins, í samtali við 200 mílur. Þess í stað munu núverandi hluthafar selja af sínum hlut við skráninguna.
Tilkynnt var í morgun að stjórn Síldarvinnslunnar hafi ákveðið að hefja undirbúning að skráningu félagsins í Kauphöllina og gert ráð fyrir að það sé komið á markað á fyrri árshelming þessa árs. Þá sé markmiðið að opna félagið fyrir fleiri fjárfestum.
Spurður hvað hafi orðið til þess að ákveðið sé að skrá félagið á markað nú svarar Gunnþór: „Þetta hefur komið til tals og menn hafa fundið fyrir áhuga aðila á að koma að sjávarútvegi. Þessi ákvörðun er liður í því að svara því kalli.“ Hann segir þessa aðgerð til fallna að efla félagið til framtíðar.
Meðal núverandi hluthafa Síldarvinnslunnar er Samherji stærstur, en það fyrirtæki fer með 44,64% hlut. Þá fer Kjálkanes ehf. með 34,23% hlut en það félag er í eigu tíu einstaklinga og eru Anna og Ingi Jóhann Guðmundsbörn með hvort um sig 22,54%, en aðrir með minna. Þar á meðal Björgólfur Jóhannsson, einn tveggja forstjóra Samherja, sem fer með 8,67% hlut í Kjálkanesi.
Þá fer Samvinnufélag útgerðarmanna Neskaupstaðar með 10,97% hlut í Síldarvinnslunni. Eignarhaldsfélagið Snæfugl ehf. fer með 5,29% hlut í Síldarvinnslunni, en eigendur þess eru fjórir. Halldór Jónasson er stærsti hluthafi í Snæfugli með 54,25% en Björgólfur Jóhannsson minnsti hluthafi með 5%.
Hraunlón ehf., í jafnri eigu Einars Benediktssonar og Gísla Baldurs Garðarssonar, fer með 1,62% hlut í Síldarvinnslunni en aðrir hluthafar eru með minna en eitt prósent. Alls eru ríflega 280 hluthafar í félaginu og ekki ljóst hverjir eru nú að hugsa um að selja hluti sína.