Ný loðnuráðgjöf hækkar til muna

Fari ráðherra að ráðgjöf Hafró stefnir í sæmilega loðnuvertíð en …
Fari ráðherra að ráðgjöf Hafró stefnir í sæmilega loðnuvertíð en stofnunin hefru ákveðið að meira en tvöfalda ráðgjöf sína. mbl.is/Börkur Kjartansson

Haf­rann­sókna­stofn­un hef­ur hækkað ráðgjöf sína fyr­ir loðnu á yf­ir­stand­andi vertíð úr 61 þúsund tonn­um í 127.300 tonn. Það bend­ir því til að loðnu­vertíðin verði gjöf­ulli en talið var í fyrstu, en stærsta loðnu­leiðangri sög­unn­ar lauk á dög­un­um og tóku átta skip þátt.

Sam­kvæmt út­reikn­ing­um 200 mílna ættu ís­lensk skip að fá um 70 þúsund tonn í sinn hlut af þess­ari ráðgjöf, í stað um 20 þúsund tonna miðað við fyrri ráðgjöf.

Ráðgjöf­in bygg­ist á niður­stöðum tveggja leiðangra sem fóru fram seinni part janú­ar og gáfu mat á stærð hrygn­ing­ar­stofns loðnu upp á sam­tals 650 þúsund tonn, að því er seg­ir í til­kynn­ingu á vef Haf­rann­sókna­stofn­un­ar.

Þá seg­ir að „fyrri leiðang­ur­inn fór fram dag­ana 17. til 20. janú­ar með þátt­töku þriggja skipa fyr­ir aust­an land. Við heild­ar­stofn­mat var not­ast við mæl­ing­ar þessa leiðang­urs sem voru sunn­an við 65° norður. Seinni leiðang­ur­inn fór fram dag­ana 26.-30. janú­ar með þátt­töku alls átta skipa og dekkuðu þau Vest­fjarða-, Norður- og norðan­verð Aust­ur­mið.“

Veður og haf­ís truflaði leit

Fram kem­ur í til­kynn­ingu stofn­un­ar­inn­ar að fyrri leiðang­ur­inn hafi aðeins náð yfir syðsta hluta út­breiðslu­svæðis loðnu fyr­ir aust­an land þar sem óveður kom í veg fyr­ir frek­ari mæl­ing­ar norðar.

„Dreif­ing loðnu ásamt for­send­um um göngu­stefnu og tíma­setn­ing­ar var lögð til grund­vall­ar á ákvörðun um sam­lagn­ingu mæl­ing­anna með þess­um hætti. Heild­ar­yf­ir­ferð þess­ara tveggja leiðangra er tal­in ná yfir allt út­breiðslu­svæði hrygn­ing­ar­loðnu. Það gilti ekki um mæl­ing­ar í des­em­ber og fyrri hluta janú­ar og því voru niður­stöður þeirra ekki notaðar í þess­ari lokaráðgjöf.“

„Ráðgjöf um afla­mark bygg­ist á því að 95% lík­ur séu á að hrygn­ing­ar­stofn­inn í mars verði yfir 150 000 tonn­um að teknu til­liti til afráns. Sam­kvæmt því leiðir þessi heild­ar­mæl­ing til veiðiráðgjaf­ar upp á 127.300 tonn vet­ur­inn 2020/​21 og kem­ur í stað fyrri ráðgjaf­ar frá því í janú­ar.“

Dreifing loðnu í leiðangrinum 26.-30. janúar 2021.
Dreif­ing loðnu í leiðangr­in­um 26.-30. janú­ar 2021. Mynd/​Haf­rann­sókna­stofn­un
mbl.is