Selja Sighvat Bjarna og stefna að sameiningu

Huginn VE að veiðum. Skipið er í eigu útgerðarfélags sem …
Huginn VE að veiðum. Skipið er í eigu útgerðarfélags sem ber sama nafn. Félagið er nú að fullu í eigu Vinnslustöðvarinnar sem stefnir að því að sameina félaögin. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Vinnslu­stöðin í Vest­manna­eyj­um gekk ný­verið frá samn­ingi um kaup á 52% hlut í út­gerðarfé­lag­inu Hug­in, en fyr­ir átti Vinnslu­stöðin 48% í fé­lag­inu. Kaup­un­um fylgja tölu­verð afla­hlut­deild og ný­legt skip, Hug­inn VE, sem smíðað var 2001.

Sig­ur­geir Brynj­ar Krist­geirs­son eða Binni, fram­kvæmda­stjóri Vinnslu­stöðvar­inn­ar, seg­ir fé­lög­in hafa átt í sam­starfi um nokk­urt skeið, sér­stak­lega í sam­bandi við lönd­un og vinnslu á mak­ríl, en Hug­inn hef­ur einnig verið í sam­starfi við Eskju á Eskif­irði.

„Planið er auðvitað bara að halda áfram og gera gott betra,“ seg­ir Binni og bend­ir á að Hug­inn verður áfram rek­inn und­ir eig­in merkj­um fyrst um sinn. Þá verða fyr­ir­tæk­in sam­rek­in til að ná fram þeirri hag­kvæmni sem því fylg­ir. Spurður hvernig á rekst­ur­inn er litið til lengri tíma svar­ar hann að það sé ljóst að þegar fram líða stund­ir verða fé­lög­in sam­einuð. „Kaup­in eru gerð með fyr­ir­vara um samþykki Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins. Um leið og það ligg­ur fyr­ir för­um við strax í sam­rekst­ur­inn, en á end­an­um mun­um við sam­eina þau.“

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, segir stefnt að hafin verður …
Sig­ur­geir Brynj­ar Krist­geirs­son, fram­kvæmda­stjóri Vinnslu­stöðvar­inn­ar, seg­ir stefnt að haf­in verður sam­rekst­ur strax og síðar að sam­ein­ingu fé­lag­anna. mbl.is/Ó​skar Pét­ur Friðriks­son.

Mikl­ar afla­heim­ild­ir

„Já, þetta er um­tals­verð viðbót,“ svar­ar Binni spurður hvort afla­heim­ild­irn­ar sem fylgja kaup­un­um skipti sköp­um fyr­ir Vinnslu­stöðina. „Vinnslu­stöðin er með ein­hver níu pró­sent í mak­ríl og þeir eru með tæp­lega 6,6%, það er heil­mik­il viðbót í því. Þeir eru með stærri kol­munna­kvóta en við þannig að hann mun meira en tvö­fald­ast. Við erum með um 10% í ís­lenskri síld og þeir með um 2% og svo erum við með rétt inn­an við 7% í norsk-ís­lenskri síld en þeir með 4,6%.

Svo er það auðvitað loðnan sem allt snýst um núna, þar er Vinnslu­stöðin með tæp 11% og Hug­inn 1,4%. En við vit­um ekki hvort við verðum með 12,3% af núlli eða 12,3% af ein­hverju. Von­andi fáum við svör við því á morg­un [í dag].“ Bú­ist er við að Haf­rann­sókna­stofn­un kynni í dag niður­stöður úr um­fangs­mesta loðnu­leit­ar­leiðangri Íslands­sög­unn­ar, en átta skip voru ým­ist við leit og/​eða mæl­ing­ar í þeirri von að meiri loðnu væri að finna. Aðeins hef­ur verið heim­ilt að veiða 61 þúsund tonn á þess­ari vertíð, en Íslend­ing­ar fá þriðjung þeirra afla­heim­ilda sök­um skuld­bind­inga í gegn­um alþjóðlega fisk­veiðisamn­inga.

Sig­hvat­ur Bjarna­son seld­ur

Það ligg­ur fyr­ir að með aukn­um afla­heim­ild­um get­ur Vinnslu­stöðin tryggt bet­ur fram­boð hrá­efn­is fyr­ir vinnsl­una, að sögn Binna. „En við mun­um skoða það með opn­um huga hvernig við ger­um þetta allt sam­an. Skipið [Hug­inn VE] er út­búið til fryst­ing­ar úti á sjó og við mun­um halda þeim mögu­leika opn­um. Það er áhuga­verður kost­ur sem við vilj­um skoða vel og vand­lega.

Sighvatur Bjarnason VE var smíðaður 1975 og hefur fylgt Eyjamönnum …
Sig­hvat­ur Bjarna­son VE var smíðaður 1975 og hef­ur fylgt Eyja­mönn­um um langt skeið. Hann verður seld­ur enda fylgdi ný­leg­ur Hug­inn VE kaup­um Vinnslu­stöðvar­inn­ar á Hug­in.. Morg­un­blaðið/​Sig­urður Bogi

Þá er jafn­framt ekki ljóst hvernig sam­starfi Hug­ins við Eskju verður háttað. „Við þurf­um að velta fyr­ir okk­ur hvort og hvernig við eig­um sam­leið með Eskju og sjá hvort við finn­um ein­hverja skemmti­lega sam­starfs­fleti með þeim. Það eru ýmis tæki­færi.“

Eins og fyrr seg­ir er Hug­inn ný­legt skip og því eðli­legt að velta fyr­ir sér hvort kaup­in hafi í för með sér að Vinnslu­stöðin leggi ein­hverju af sín­um skip­um. „Hérna í höfn­inni hef­ur Sig­hvat­ur Bjarna­son gamli legið sem vara­skip ef við þyrft­um á að halda sem þriðja skip Vinnslu­stöðvar­inn­ar. Það blas­ir nú við að við mun­um ekki þurfa á hon­um að halda í fram­hald­inu og hann verður bara seld­ur. Þá fækk­um við um eitt skip, þó að því hafi ekki verið róið í nokk­ur ár,“ út­skýr­ir Binni og bæt­ir við að Sig­hvat­ur Bjarna­son sé „barn síns tíma“, en nóta- og tog­veiðiskipið var smíðað í Nor­egi 1975 og því á miðjum fimm­tugs­aldri.

Bíða niður­stöðu mats­manna

Vinnslu­stöðin og Hug­inn eru þau tvö út­gerðarfyr­ir­tæki sem ekki féllu frá skaðabóta­kröfu sinni á hend­ur ís­lenska rík­inu í fyrra, eins og fimm önn­ur gerðu. Fé­lög­in tvö telja ríkið skulda sér sam­tals um tvo millj­arða í skaðabæt­ur vegna dóms Hæsta­rétt­ar sem féll í des­em­ber 2018 um að ríkið hafi ekki staðið rétt að út­hlut­un veiðiheim­ilda árin 2011 til 2014.

Binni seg­ir stöðuna í mál­inu vera þá að beðið sé eft­ir niður­stöðu dómskvaddra mats­manna, en þeir meta hvert fjár­hags­legt tjón fé­lag­anna kann að hafa verið vegna lög­brots rík­is­ins. „Það er eng­um blöðum um það að fletta að ríkið hef­ur verið dæmt skaðabóta­skylt, það fór ekki að lög­um. Við gæt­um al­veg snúið þessu við og hugsað okk­ur hvernig þetta hefði farið ef Vinnslu­stöðin hefði ekki farið að lög­um og væri skaðabóta­skyld gagn­vart rík­inu, það þarf ekk­ert að velta því fyr­ir sér hvernig staðan væri.“

Hann seg­ir ekk­ert liggja fyr­ir um hvenær megi bú­ast við niður­stöðu mats­mann­anna. „Þetta er heil­mikið mál sem þeir auðvitað vilja vanda sig við að setja sig inn í. Það er ekki hrist fram úr erm­inni á kort­eri.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: