Einn þurfti að snúa við

John Snorri Sigurjónsson.
John Snorri Sigurjónsson. Ljósmynd/Aðsend

Félagi John Snorra Sigurjónssonar, Sajid Ali, er snúinn við í búðir 3 á K2 þar sem súrefni hans virkaði ekki sem skyldi. Aftur á móti eru John Snorri og Ali Sadpara, faðir Sajids, á góðri leið og stutt í að þeir nái á tind fjallsins. 

Með þeim í för er J. Pablo frá Síle en þeir þrír ætla saman á tindinn. Að sögn Sajids Alis eru þremenningarnir við góða heilsu og miðar vel áfram.

Feðgarn­ir Muhammad Ali Sa­dp­ara og Sajid Ali eru þrautreyndir fjallgöngumenn en Muhammad hef­ur klifið K4, K5, Nanga Par­bat fimm sinn­um, þar af fyrst­ur til þess að vetr­ar­lagi, Broad Peak sem og K2 árið 2018. Hann kleif Lhot­se, Makalu og Manaslu árið 2019. Son­ur Sa­dp­ara, Sajid Ali, kleif K2 2019. 

K2 er 8.611 metr­ar að hæð og er annað hæsta fjall heims, næst á eft­ir Mount Ev­erest sem er 237 metr­um hærra. John Snorri varð fyrst­ur Íslend­inga til að klífa tind­inn Lhot­se í Himalaja­fjall­g­arðinum, sem er 8.516 metra hár og fjórða hæsta fjall heims. Hann er eini Íslendingurinn sem hefur staðið á tindi K2 en það var sumarið 2017.

mbl.is