Þrír Íslendingar kunna að verða ákærðir í Namibíu

Þrjú félög Samherja í Namibíu kunna að verða ákærð þar …
Þrjú félög Samherja í Namibíu kunna að verða ákærð þar í landi ásamt stjórnendum og starfsmönnum, þrír þeirra eru Íslendingar. mbl.is/Sigurður Bogi

Sak­sókn­ari í Fis­hrot-mál­inu til­kynnti í dag að hann hyggst leggja fram ákæru gegn þrem­ur fé­lög­um sem tengj­ast Sam­herja. Vegna ákvæða laga þar í landi verða stjórn­end­ur um­ræddra fyr­ir­tækja einnig ákærðir og eru meðal þeirra þrír ís­lensk­ir rík­is­borg­ar­ar.

Í mál­inu hafa nú þegar á þriðja tug Namib­íu­manna stöðu sak­born­ings, en við fyr­ir­töku máls­ins fyr­ir namib­ísk­um dóm­stól­um í Wind­hoek í morg­un lýsti sak­sókn­ari fyr­ir­ætlan­ir sín­ar um að leggja fram fleiri ákær­ur í fjár­glæpa­mál­inu.

Fram kem­ur í Nami­bi­an að fyr­ir­hugaðar ákær­ur gegn þrem­ur fé­lög­um sem tengj­ast Sam­herja og stjórn­end­um þeirra eru í alls 14 liðum og er á meðal þeirra ásak­an­ir um fjár­svik, pen­ingaþvætti og spill­ingu.

Var­ist af full­um krafti

„Fyr­ir­huguð ákæra kem­ur ekki á óvart í ljósi þeirra ásak­ana sem sak­sókn­ar­ar í Namib­íu hafa áður sett fram og byggja meira og minna all­ar á staðhæf­ing­um Jó­hann­es­ar Stef­áns­son­ar sem stýrði út­gerðinni í Namib­íu en var sagt upp störf­um sum­arið 2016,“ seg­ir Sam­herji í færslu á vef fyr­ir­tæk­is­ins.

Þar seg­ir að „út­gerð namib­ískra fé­laga sem tengj­ast Sam­herja var lögð niður í lok árs 2019 og unnið er að því að slíta fé­lög­un­um end­an­lega. Ásak­an­ir á hend­ur um­rædd­um fyr­ir­tækj­um og ein­stak­ling­um á þeirra veg­um eiga ekki við rök að styðjast nú frek­ar en fyrr. Fram­hald þessa máls verður á næstu mánuðum. Ef ákæra verður gef­in út á hend­ur áður­nefnd­um fyr­ir­tækj­um gefst Sam­herja þá fyrst kost­ur á að koma fram vörn­um sín­um en slíkri ákæru verður var­ist af full­um krafti.“

Helgi Selj­an, fréttamaður á RÚV, til­kynnti á Twitter í dag að þrír ís­lensk­ir starfs­menn og stjórn­end­ur Sam­herja hefðu verið ákærðir vegna máls­ins. Sam­herji upp­lýs­ir í sam­skipt­um við 200 míl­ur að hið rétta sé að eng­ar ákær­ur hafa verið lagðar fram, en eins og fyrr seg­ir til­kynnti sak­sókn­ari þar ytra um áform sín um ákær­ur í morg­un.

mbl.is